Evrópskar hlutabréfavísitölur lækkuðu flestar í dag, sama dag og evrópski seðlabankinn hóf skuldabréfakaup sín í samræmi við áætlun sem kynnt var í janúar á þessu ári. Í frétt Reuters segir að lækkunin sé gott dæmi um það þegar fjárfestar "kaupa á orðrómnum og selja á fréttinni". Markaðir séu fyrir löngu búnir að taka skuldabréfakaup seðlabankans inn í hlutabréfaverð, enda hafa evrópsk hlutabréf hækkað um 15% frá tilkynningunni í janúar.

Lækkunin í Evrópu nú er sögð sambærileg við lækkunina í Bandaríkjunum á föstudaginn, en hún varð vegna frétta af mjög jákvæðri þróun á bandarískum vinnumarkaði. Minnkandi atvinnuleysi geri vaxtahækkun hjá bandaríska seðlabankanum líklegri.

Breska FTSE vísitalan lækkaði um 0,5% í dag, franska CAC vísitalan um 0,62%, en þýska DAX vísitalan hækkaði hins vegar um 0,19%.