Talsverðar lækkanir hafa verið á hlutabréfamörkuðum í Evrópu dag vegna aukinna áhyggna af fjármögnunargetu ítalskra banka. Forsætisráðherrann vill nota opinbert fé til að hjálpa þeim þvert á ESB reglur, en pólítískur óstöðugleiki gæti valdið frekari ólgu.

Meginlandsvísitölur lækka

Breska pundið er komið niður í 161 krónu og hefur lækkað í dag um 1% gagnvart Bandaríkjadal og evru. Einnig eru lækkanir á mörkuðum í Evrópu, hefur DAX vísitalan þýska lækkað um 1,74%, en Euro Stoxx 50 vísitalan hefur lækkað um 1,77% og Euro Stoxx 600 vísitalan um 1,4%.

FTSE 100 vísitalan breska sýnir þó eilitla hækkun. Virðist vera meira samhengi milli lækkana pundsins og vísitalnanna á meginlandi Evrópu, en það gæti komið til vegna þess að FTSE vísitalan er mjög alþjóðleg með mikið af námuvinnslu og hrávörufyrirtækjum innanborðs.

Hlutabréf í ítölskum bönkum hrynja

Áhyggjur af stöðugleika ítalskra banka gæti haft áhrif á hve illa gengur á Evrópumörkuðum í dag, en leiðtogar evrusvæðisins hafa ekki litið áætlanir forsætisráðherrans, Matteo Renzi, um að setja aukið fé í bankana hýru auga. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins er ekki leyfilegt að nota skattfé til að borga fyrir björgun banka í nauðum.

Hlutabréf ítalska bankans Banca Monte dei Paschi di Siena SpA um 14% í gær og í dag hefur lækkunin numið um 9% til viðbótar, en það stefnir í að á árinu hafi lækkunin numið 76%. UniCredit SpA sem er stærsti banki landsins eignarlega séð hafur lækkað um 63%, Banca Popolare di Milano SpA hefur lækkað um 64% og Intesa Sanpaolo SpA hefur lækkað um 46%. Samkvæmt seðlabanka landsins hvíla á ítölskum bönkum léleg lán sem nema um 360 milljörðum evra, sem nemur um 18,1% af heildarlánveitingum þeirra.

Þjóðaratkvæði um stjórnarskrá möguleg ógn

Einnig stendur fyrir dyrum þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá Ítalíu sem gæti skaðað forsætisráðherrann og valdið pólítískri ólgu. Snýst atkvæðagreiðslan um breytingu á hlutverki öldungadeilar þingsins þannig að ef tillögur forsætisráðherrans eru samþykktar er dregið úr valdi þess til að hindra lagabreytingar.