Allir helstu hlutabréfamarkaðir í Asíu lækkuðu í morgun og þá eru allir helstu markaðir í Evrópu rauðir það sem af er degi. Þetta er fimmti dagurinn í röð sem markaðir lækka í Asíu, en skv. frétt Bloomberg fréttaveitunnar má rekja lækkun dagsins til þess að japanski seðlabankinn hafi ekki brugðist við kröfum um það að birta stefnu sína um hvernig auka skyldi stöðugleika í kerfinu auk þess sem kínverskar hagtölur sýndum í morgun aukinn og óvæntan viðskiptajöfnuð. Þá má að hluta til rekja lækkunina til lækkunar á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 0,3% í dag. Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 0,1%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 1,2% og í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 1%. Í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 0,6%.

Þá hafa sem fyrr segir markaði í Evrópu einnig lækkað það sem af er degi. Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja þær lækkanir til vonbrigða með atvinnutölur í Bandaríkjunum (nýjar tölur sýna að störfum vestanhafs hefur ekki fjölgað) auk þess sem lækkanir í Asíu í morgun hafi dregið þrótt úr evrópskum mörkuðum.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur lækkað um 0,4% það sem af er degi en hafði fyrr í morgun lækkað um 0,8%. Heldur hefur dregið úr lækkunum eftir því sem liðið hefur á morguninn. Aðeins á einum stað, í Amsterdam, hefur AEX vísitalan hækkað í morgun eða um 0,3% þegar þetta er skrifað rétt fyrir kl. 9 á íslenskum tíma. Fyrr í morgun hafði vísitalan lækkað um 0,5%.

Í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,7% og í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 0,8%. Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 0,9% og í Zurich hefur SMI vísitalan lækkaði um 0,9%.

Þá hafa allar vísitölur lækkað á Norðurlöndunum það sem af er degi. Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 0,3%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 0,7% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 1,3%.