Gengi hlutabréfa í Kauphöllinni hefur lækkað það sem af er degi. Við skrif þessarar fréttar hefur gengi Úrvalsvísitölunnar lækkað um 2,49%, en mestu viðskiptin hafa verið með bréf Icelandair og Marel.

Gengi bréfa Icelandair Group hefur fallið um 2,76% í 561 milljóna króna viðskiptum. Verð á hvern hlut er þá 31,75 krónur. Gengi bréfa Marel hefur lækkað um 2,27% í 332 milljóna króna viðskiptum. Þá er verð á hvern hlut Marel 215 krónur.

Gengi bréfa VÍS er það eina sem hefur hækkað. Hækkunin nemur 1,1% í aðeins 17 milljóna króna viðskiptum. Verð á hlut er þá 8,29 krónur.

Fréttir þess efnis bárust á sunnudag að félagið hefði nú gengið til samninga við Arctica Finance hf. vegna útgáfu og sölu víkjandi skuldabréfa að nafnvirði 2,5 milljarða króna.

Stefnt er að töku skuldabréfanna til viðskipta í Kauphöll á árinu. Hin nýju skuldabréf eru vaxtagreiðslubréf og bera 5,25% fasta verðtryggða vexti.