Hækkanir á fasteignaverði á síðustu tveimur árum hafa verið minni en árin á undan. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1%.

Á sama tímabili í fyrra nam hækkunin 1,9% og var hún 11,9% árið 2017. Þetta er meðal þess sem kom fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans og jafnframt var greint frá því að svo virðist vera sem fasteignamarkaðurinn sé í algjörri kyrrstöðu.

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir að það hafi verið mjög rólegt yfir fasteignamarkaðnum á höfuðborgar ­ svæðinu í töluvert langan tíma.

„Nú höfum við til að mynda séð nafnverðshækkanir upp á að meðaltali 9,5% frá aldamótum en undanfarið hefur fasteignaverð hækkað að meðaltali um 4–5% árlega sem er miklu eðlilegri staða,“ segir Ari og bætir við að um þessar mundir séu að koma eignir inn á markaðinn sem séu það stórar og dýrar að fyrstu kaupendur hafi almennt séð ekki efni á þeim. „Það er að minnsta kosti klárt mál að markaðurinn er orðinn mun rólegri núna,“ bætir hann við.

Verðlækkanir ekki ólíklegar

Ólafur Sindri Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segir að það sé greinilegt að markaðurinn sé orðinn ansi hægur. Verulega hafi dregið úr viðskiptum og 80% af seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hafi selst undir ásettu verði. Spurður hvort hann telji að verðlækkanir á húsnæðismarkaði séu í kortunum segir hann það ekki vera ólíklegt.

„Ég tel það ekki ólíklegt. Það er verið að byggja mikið af íbúðarhúsnæði um þessar mundir. Við sjáum líka að meðalsölutími er að lengjast og það eru líkur á að  Airbnb íbúðir fari að leita í auknum mæli inn á markaðinn í haust. Ef það gerist þá þykir mér líklegt að verðið muni gefa eftir.“

Spurður um hverjar ástæðurnar séu fyrir því að fólk hafi keypt minna af fasteignum í júní segist Ólafur ekki vita nákvæmlega hver ástæðan sé. „Eina sem við vitum er að júní var mjög slæmur. Við erum að skoða núna hverjar ástæðurnar fyrir því gætu verið. En eins og er höfum við ekkert einhlítt svar við því.“ Hann bætir þó við að hann telji líklegt að fólk haldi að sér höndum sökum mikillar óvissu um efnahagsástandið.

Ari Skúlason segir erfitt að segja til um hvort íbúðaverð muni lækka á komandi misserum. „Ef það koma margar Airbnb íbúðir í einu inn á markaðinn þá getur það vissulega haft áhrif á verðið en það má ekki gleyma því að dæmi hafa verið um það að leigufélög hafi sett margar íbúðir á markaðinn á tiltölulega stuttum tíma og hafði það ekki mikil áhrif á verðið, svo það er erfitt að segja.“ Hann bætir við að þó staðan á húsnæðismarkaði sé óvenjuleg sé hún ekki endilega slæm.

„Við erum bara að sjá stöðugan markað í stöðugu efnahagsumhverfi. Raunverð féll eftir hrun og það er búið að ná sér síðan og vel það. Það er aftur á móti ekki heppilegt að hafa markaðinn eins og hann var árin 2016 og 2017 þegar við horfðum upp á hátt í 20% verðhækkanir á ári. Markaðurinn er orðinn miklu eðlilegri núna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .