Markaðir í Asíu lækkuðu í nótt vegna óvissu um atvinnuástand í Bandaríkjunum og lækkandi olíuverðs.

Ótti við áframhaldandi slæmar tölur frá Bandaríkjunum

Féll Nikkei vísitalan í Japan um 1,11% og Kospi vísitalans í Kóreu um 0,56%, og Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 0,69%. Lækkaði Shanghai Composite vísitalan um 0,95% en Ástralska S&P/ASX 200 vísitalan hélst nokkuð flöt með 0,05% hækkun.

Í dag munu birtast tölur um fjölda nýrra starfa fyrir júní í Bandaríkjunum en tölurnar sem birtust fyrir maímánuð sýndu minnstu aukningu nýrra starfa í fimm ár svo áframhaldandi slæmar fréttir myndu sýna fram á veikleika í bandaríska hagkerfinu.

Tölur um atvinnuástand í Bandaríkjunum hafa misvísandi áhrif á asíska fjárfesta. Góðar tölur myndu endurvekja traust á bandaríska hagkerfinu. Það myndi einnig draga úr hækkunum japanska yensins sem myndi hjálpa japönskum útflytjendum. En betra atvinnuástand í Bandaríkjunum myndi auka líkurnar á stýrivaxtahækkunum í Bandaríkjunum sem myndi strykja dalinn og ýta undir fjármagnsflutninga frá Asíu til Bandaríkjanna.