Hæstiréttur hefur staðfest bótaskyldu íslenska ríkisins gagnvart sakborningum í Aserta-málinu. Dómurinn í dag er merkilegur fyrir þær sakir að hann kveður á um skyldu ríkisins til að greiða bætur vegna haldlagningar og kyrrsetningar fjármuna við rannsókn málsins sem lýkur með sýknu eða niðurfellingu máls.

Leiðrétting 12.16: Mistök voru gerð í upphaflegri útgáfu fréttarinnar en þar var staðhæft að bætur vegna málsins hefðu verið lægri í Hæstarétti en Landsrétti. Þetta er ragnt. Hið rétta er að málsaðilar undu niðurstöðu um bætur í Landsrétti en leitað var til Hæstaréttar til að endurskoða aðra þætti þess. 2,5 milljón króna bætur vegna dráttar málsins, sem Landsréttur hafði dæmt, standa því óhaggaðar og koma bæturnar nú til viðbótar við það. Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt vegna þessa sem og efni fréttarinnar. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

Aserta málið veltist um í dómskerfinu í um sex ár, frá því í janúar 2010 til febrúar 2016, en ákæra var gefin út í mars 2013 þar sem fjórum mönnum var gefið að sök að hafa haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands. Mennirnir voru í sýknaðir í héraði, en áður hafði verið fallið frá hluta ákæruliða, og fallið var frá áfrýjun til Hæstaréttar.

Eftir að sakamálinu lauk höfðaði hluti sakborninga mál gegn ríkinu til heimtu bóta vegna málsins. Í fyrsta lagi var farið fram á miskabætur vegna ummæla saksóknara í fjölmiðlum á rannsóknarstigi, í öðru lagi bóta vegna þess hve langan tíma málareksturinn tók, í þriðja lagi bóta vegna fjárhagslegs tjóns sem hlaust af kyrrsetningu og haldlagningu eigna og í fjórða lagi bóta vegna atvinnutjóns.

Héraðsdómur dæmdi ríkið bótaskylt vegna ummæla saksóknara í fjölmiðlum og skyldu bæturnar nema 1,4 milljónum króna. Landsréttur staðfesti bótaskylduna en hafnaði því að ólögmæt meingerð hefði falist í ummælunum. Þess í stað kom bótaskyldan til vegna þess dráttar sem varð á málinu. Voru bætur dæmdar 2,5 milljónir króna.

Í dómi Hæstaréttar var því hafnað að dæma bætur vegna ummæla saksóknara í tengslum við málið. Á fyrsta blaðamannafundi vegna þess var talið að saksóknarinn hefði viðhaft „afdráttarlaust þá fyrirvara er lög bjóða um ætlaða sekt ónafngreindra manna sem tengdust því félagi og tók fram að sök hefði ekki verið sönnuð.“ Um önnur ummæli taldi dómurinn að saksóknarinn hefði verið að veita „almenningi innsýn í rannsókn málsins“ og að ekki hefði verið farið út fyrir þau mörk sem lög leyfa.

Hvað bætur vegna haldlagningar og kyrrsetningar á munum varðar sagði Hæstiréttur að skilyrði hefðu verið uppfyllt til að grípa til þeirra ráðstafana. Íslenska ríkið bæri engu að síður hlutlæga ábyrgð á þeim á grundvelli sakamálalaganna. Þó mætti lækka bæturnar ef í ljós kæmi að sakborningar hefðu stuðlað að rannsóknaraðgerðum en ekki var fallist á þá kröfu ríkisins.

Fallist á bætur fyrir kyrrsetningu

„Fallist er á það með áfrýjanda að þeir innlánsvextir sem lögðust á hið haldlagða og kyrrsetta fé þann tíma sem um ræðir hafi ekki veitt honum fulla bót og nægilega sé í ljós leitt að hann hafi orðið fyrir frekara fjártjóni vegna þessara aðgerða,“ segir í dómi Hæstaréttar. Þar sem lög hefðu ekki að geyma fyrirmæli um það hvernig bæri að reikna bæturnar úr yrði að dæma þær að álitum á grunni meginreglna skaðabótaréttarins.

Dómkrafan hljóðaði aðallega upp á bætur sem jafngiltu dráttarvöxtum á því tímabili sem kyrrsetningin varði, um 3,4 milljónir króna. Varakrafan svaraði hefðbundnum grunnútlánsvöxtum, 1,6 milljónir króna, og þrautavarakrafan var tæplega 1,1 milljón króna og samsvaraði almennum skaðabótavöxtum.

Að mati Hæstaréttar þótti rétt að horfa til almennra vaxta á útlánum að teknu tilliti til þeirra innlánsvaxta sem lögðust á innistæðurnar á kyrrsetningartímabilinu. Hæfilegar bætur voru ákveðnar að álitum 600 þúsund krónur og leggjast dráttarvextir á þær frá 1. mars 2017 en þá var mánuður liðinn frá höfðun málsins. Landsréttur hafði hafnað bótum vegna þessa þar sem hinir kyrrsettu fjármunir höfðu borið vexti á meðan kyrrsetning varði.

Ein af ástæðum þess að fallið var frá hluta ákæru málsins var sú að reglur sem refsa átti fyrir brot gegn höfðu ekki verið staðfestar af ráðherra. Sá þáttur varð einnig til þess að málið tók nokkuð langan tíma. Að mati Hæstaréttar var ekki fallist á að lögregla eða ákæruvald hefði sýnt af sér skaðabótaskylt gáleysi með því að ganga ekki harðar eftir upplýsingum frá Seðlabankanum eða ráðuneytinu um hvort reglurnar hefðu verið settar með réttum hætti. Þá var heldur ekki fallist á að það væri saknæm háttsemi af hálfu lögreglunnar að halda rannsókn áfram. Bótum fyrir atvinnutjón var því hafnað.