Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir Evrusvæðið á þessu ári og spáir nú 0,8% hagvexti. Í vor hafði hún spáð 1,2% hagvexti á svæðinu á þessu ári.

Helstu ástæðurnar fyrir breytingunni eru ástandið í Úkraínu og Mið-Austurlöndum, auk samdráttar í fjárfestingu. Þá lækkaði framkvæmdastjórnin jafnframt hagvaxtarspána fyrir árið 2015 og gerir nú ráð fyrir 1,1% vexti í stað 1,7% líkt og spáð var í vor. Hagvöxturinn mun svo aukast á árinu 2016 í 1,7%. Einnig er búist við því að verðbólga á Evrusvæðinu muni áfram verða undir 2% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Evrópu til ársins 2016 að minnsta kosti.

Horfurnar eru hins vegar betri séu öll aðildarríki Evrópusambandsins tekin með í reikninginn. Að meðaltali er gert ráð fyrir 1,3% hagvexti meðal aðildarríkjanna á þessu ári, 1,5% hagvexti á næsta ári og 2% hagvexti á árinu 2016.