Forstjóri fjárfestingarbankans Goldman Sachs, David Solomon, mun þurfa að sætta sig við 10 milljóna dollara launalækkun vegna þáttar bankans í hinu svokallaða 1MDB hneykslismáli. 1MDB var fjárfestingasjóður sem settur var á fót af malasískum stjórnvöldum, en sjóðurinn tapaði mörgum milljörðum vegna sviksamlegs athæfis. BBC greinir frá.

Vefur svika og spillingar er tengdist málinu og náði víða um heim, varð til þess að fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, var dæmdur til 12 ára fangelsisvistar. Ráðherran fyrrverandi hefur þó áfrýjað umræddum dómi.

Forsvarsmenn Goldman Sachs kenna mistökum sem áttu sér stað í verkferlum innan bankans um hlutdeild bankans í umræddum hneykslismáli.

Hlutdeild Goldman Sachs í málinu fólst í því að bankinn hjálpaði til við að safna 6,5 milljörðum dollara í 1MDB sjóðinn með sölu á skuldabréfum til fjárfesta, en ávinningnum var svo ráðstafað með ólöglegum hætti.

Tveir starfsmenn Goldman Sachs hafa verið ákærðir af malasískum yfirvöldum fyrir sína hlutdeild í málinu.