Sennilegt er að breytt afmörkun viðskipta Seðlabanka Íslands (SÍ) muni leiða til einhverrar lækkunar á vöxtum á skuldabréfamarkaði og jafnvel til lækkunar á millibankavöxtum. Umfang breytinganna er háð því hvert fjármagnið mun leita.

Í upphafi liðinnar viku tilkynnti Seðlabankinn að frá og með 1. apríl nk. muni fækka í hópi aðila sem munu geta átt viðskiptareikning í bankanum. Hingað til hefur sá möguleiki staðið bönkum, sparisjóðum, lánafyrirtækjum, ríkisstofnunum og ýmsum sjóðum ríkisins til boða. Eftir að breytingin tekur gildi munu eingöngu innlánsstofnanir og A-hluta stofnanir ríkisins eiga kost á slíkum viðskiptum. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að markmiðið með breytingunni sé að styðja við miðlun peningastefnunnar út í vaxtarófið og að bankinn telji það ekki samræmast hlutverki sínu að eiga í samkeppni við fjármálafyrirtæki um innistæður.

Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um það hve há upphæð nákvæmlega það er sem breytingin mun hafa áhrif á en heimildir blaðsins herma að hún sé talsvert norðan við hundrað milljarða króna. Stóran hluta þess má rekja til Íbúðalánasjóðs (ÍLS) en samkvæmt árshlutauppgjöri sjóðsins, fyrir fyrri helming þessa árs, námu innistæður sjóðsins hjá Seðlabankanum 77 milljörðum króna um mitt ár. Upphæðin nam 58,7 milljörðum í ársbyrjun 2018 en 68,1 milljörðum í árslok sama ár.

„Það er í gildi fjárfestingastefna hjá sjóðnum sem við förum eftir. Við höfum haft að leiðarljósi að ná í sem mesta ávöxtun án þess að taka mikla áhættu og byggt upp stórt eignasafn í ríkisbréfum, sértryggðum skuldabréfum og talsvert í skammtímakröfum á viðskiptabankana. Það á eftir að endurskoða stefnuna með hliðsjón af uppskiptingunni. Það er alveg ljóst að við verðum að finna þessum fjármunum nýjan stað en það er ekki jafn ljóst hver sá staður verður. Þegar þar að kemur þarf ríkið að velta fyrir sér hvað það vill hafa mikla mótaðilaáhættu á bankana. Það er því óvíst að þetta fari í bankakerfið. Við lokun núverandi viðskiptareiknings munu innistæður færast á vaxtalausan reikning hjá SÍ verði ekki búið að ráðstafa þeim annað,“ segir Þorsteinn Arnalds áhættustjóri ÍLS.

Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfamarkaða hjá Júpíter, telur líklegt að breytt fyrirkomulag muni hafa nokkur áhrif á raunhagkerfið. Stærstur hluti fjármunanna muni líklega enda í bankakerfinu en talsvert muni leita í ríkisbréf, bæði vegna lausafjárreglna bankanna og vegna þess að einungis ríkisbréf hafi sama öryggi og innistæður í SÍ.

„Ég held að það sé alveg ljóst að þessi breyting mun hafa þau áhrif að vextir á skuldabréfamarkaði muni verða lægri en ella og jafnvel millibankavextir líka. Aðgerðin er til þess fallin að vinda ofan af fjármálalegri herðingu sem hefur verið í gangi,“ segir Agnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .