Bandaríski tæknigeirinn finnur nú fyrir umtalsverðri niðursveiflu, en í hlutabréfaviðskiptum dagsins hefur gengi bréfa Alphabet - móðurfyrirtæki Google - og tæknirisans Microsoft lækkað samtals um 60 milljarða Bandaríkjadala. Það eru rétt rúmlega 1.200 milljarðar íslenskra króna.

Ástæða gengisfallsins er sú að fyrirtækin gáfu út afkomutölur fyrir fyrsta ársfjórðung 2016. Tölurnar voru lægri en búist hafði verið við - hagnaður Alphabet nam 4,2 milljörðum Bandaríkjadala eða sem nemur 7,5 dölum á hlut, þegar búist hafði verið við tæpum 8 dölum á hlut.

Niðurstöður fjórðungsins hafa hvatt fjárfesta til þess að selja bréf sín í félaginu, þrátt fyrir að 20% aukning hafi orðið á hagnaði félagsins milli ára í ársfjórðungnum. Gengi bréfanna hafa fallið um 5,8% í viðskiptum dagsins. Engu að síður ber að nefna að á tólf mánaða tímabili hafa þau hækkað um 31,8%.

Sambærilega sögu er að segja um viðskipti með bréf Microsoft. Tekjur félagsins drógust saman um 25% milli ára og hagnaður á hlut féll rétt undir spám og endaði í 62 sentum á hvern hlut. Fyrir vikið féll gengi bréfanna um 7,4% í dag. Bréf Microsoft hafa þá á einu ári hækkað um rét yfir 20%.