Staðan í kjaraviðræðum Eflingar, VR , Verkalýðsfélags Akraness ( VLFA ) og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins (SA) er grafalvarleg. Forsvarsmenn verkalýðsfélaganna bundu miklar vonir við útspil ríkisstjórnarinnar en urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar tillögurnar voru kynntar á fundi í Stjórnarráðinu í fyrradag. Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA , lét skoðun sína í ljós með því að ganga af fundinum. Dregið gæti til tíðinda kjaradeilunni á fundi hjá ríkissáttasemjara.

Svigrúmið myndi minnka

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tekur fyrir að ríkisstjórnin muni bjóða betur en hún hefur gert í tillögum um skattabreytingar og ber því við að ríkisfjármálaáætlun veiti ekki svigrúm til þess.

Spurður hvort til greina komi að endurskoða áætlunina svarar hann: „Ríkisfjármálaáætlun er tekin til endurskoðunar á hverju ári og það verður gert næstkomandi haust. Það eru engar áætlanir um að endurskoða hana sérstaklega vegna stöðunnar á vinnumarkaði enda myndi slík endurskoðun alls ekki auka svigrúm okkar til frekari aðgerða. Þvert á móti tekur áætlunin mið af efnahagslífinu hverju sinni og nú þegar hagvísar benda flestir til þess að hagkerfið sé að kólna er líklegt að svigrúm okkar til aðgerða myndi minnka við endurskoðun áætlunarinnar. Þannig að nei, það eru engin slík áform á döfinni.“

Katrín Jakobsdóttir hefur sömuleiðis sagt að hendur ríkisstjórnarinnar til að leggja á hátekjuskatt séu bundnar vegna þess að stjórnarsáttmálinn kveði skýrt á um að slíkur skattur verði ekki lagður á á kjörtímabilinu. Aðspurður hvort til greina komi að breyta sáttmálanum þannig að slík skattheimta yrði möguleg þvertekur Bjarni fyrir að slíkar breytingar komi til álita. „stjórnarsáttmálanum verður ekki breytt og hátekjuskattur verður ekki að veruleika á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar.“

Snúi sér að sveitarfélögunum

Bjarni segir að skattabreytingarnar, hækkun barnabóta og hækkun persónuafsláttar kosti ríkið 18 milljarða króna.

„Það er verulega stór hluti af heildartekjum ríkisins vegna tekjuskattskerfisins til þessa verkefnis,“ segir hann. „Menn verða til dæmis að átta sig á að tekjuskatthlutur ríkisins af einstaklingi sem hefur 325 þúsund krónur í mánaðarlaun nær ekki 20 þúsund krónum þannig að möguleiki okkar til þess að auka ráðstöfunartekjur þessara einstaklinga með skattalækkun er ekki til staðar. Við lækkum ekki skatta niður fyrir núll. Menn verða að átta sig á því að það er verið að verja rúmlega þriðjungi af öllum þeim sköttum sem innheimtir eru af þeim sem eru með 325 þúsund krónur á mánuði til þessara aðgerða.

Vilji menn ganga lengra í þessum efnum þá verða þeir að snúa sér að sveitarfélögunum en þau innheimta 47 þúsund á mánuði af sama einstaklingi á meðan hlutur ríkisins verður 11 þúsund eftir skattabreytingarnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .