*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 7. apríl 2020 17:29

Lækkun bankaskatts lækkar vexti

Landsbankinn hefur tilkynnt um lækkun á útlánsvöxtum bankans en breytingin tekur gildi eftir viku.

Jóhann Óli Eiðsson
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Aðsend mynd

Landsbankinn hefur tilkynnt um lækkun á útlánsvöxtum bankans en breytingin tekur gildi eftir viku. Þetta er í annað sinn á tæpum mánuði sem bankinn lækkar vexti sína.

Breytilegir vextir íbúðalána muni lækka um 0,1 prósentustig en fastir óverðtryggðir vextir íbúðalána um 0,3-0,4 prósentustig. Verðtryggðir íbúðalánavextir, fastir til fimm ára, lækka um 0,1 prósentustig. Innlánsvextir í íslenskum krónum verða óbreyttir. Kjörvextir til fyrirtækja og breytilegir vextir vegna bíla- og tækjafjármögnunar lækka um 0,10 prósentustig. Yfirdráttarvextir verða óbreyttir.

„Vaxtaákvörðun nú tekur einkum mið af nýlegri lækkun bankaskatts, sem var hluti af viðbrögðum stjórnvalda vegna Covid-19 faraldursins. Bankaskattur er lagður á heildarskuldir fjármálafyrirtækja og er skatturinn, þrátt fyrir þessa lækkun, enn töluvert hærri en í öðrum ríkjum sem við berum okkur saman við,“ segir í tilkynningu bankans.

Sem fyrr segir lækkaði bankinn vexti í síðasta mánuði en þá lækkuðu breytilegir vextir um 40 punkta og óverðtryggðir og verðtryggðir kjörvextir lækkuðu um 0,3 prósentustig. Yfirdráttarvextir og breytilegir vextir bíla- og fyrirtækjalána lækkuðu um 0,3-0,5 prósentustig.

 

Stikkorð: Landsbankinn bankaskattur vextir