Hlutabréf lækkuðu á helstu mörkuðum í Bandaríkjunum í dag en að sögn fjölmiðla vestanhafs má að mestu rekja lækkunin til ótta fjárfesta við efnahagserfiðleikana í Evrópu.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má einnig búast við því að uppgjör stærri fyrirtækja fyrir annan árfjórðung, sem munu nú birtast á næstu dögum, verði ekki í takt við væntingar.

Við lokun markaða í Bandaríkjunum fyrir stundu hafði Nasdaq vísitalan lækkað um 0,2% eftir að hafa þó fyrr í dag lækkað um 0,6%. Þá lækkaði Dow Jones um 0,3% og S&P 500 vísitalan um 0,2% en hún hafði einnig lækkað um 0,6% fyrr í dag. S&P 500 hefur nú lækkað um 1,6% sl. þrjá daga.

Í Evrópu varð einnig lækkun á öllum helstu mörkuðum. Í Amsterdam, Frankfurt, París, Lundúnum, Zurich, Mílanó og á Norðurlöndunum lækkuðu hlutabréfavísitölur á bilinu 0,4-0,8%.