*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 3. maí 2018 18:01

Lækkun Eimskipa endaði í 5,86%

Eimskip tilkynntu að vegna lakari afkomu á fyrsta ársfjórðungi þyrfti að lækka afkomuáætlun ársins.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,21% í dag og endaði í 1.776,70 stigum. Viðskipti á hlutabréfamarkaði námu rúmum 2,2 milljörðum króna. 

Mest lækkun var á bréfum Eimskipa sem lækkuðu um heil 5,86% en félagið sendi frá sér afkomutilkynningu í gær en þar kom fram að áætluð afkoma félagins hefði lækkað vegna lakrar rekstrarniðurstöðu á fyrsta ársfjórðungi. Viðskipti með bréf Eimskipa námu 251 milljón króna en lokagengi bréfa félagsins var 209,00 krónur. 

Mest hækkuðu bréf fasteignafélagsins Reita en þau hækkuðu um 1,09% í viðskiptum upp á hálfan milljarð króna. Bréf félagsins stóðu því í 92,50 krónum við lokun markaða. Fast á hæla Reita fylgdi fasteignafélagið Eik sem hækkaði um 1,01% í viðskiptum upp á 131 milljón króna. Bréf Eikar stóðu því í lok dags í 10,05 krónum.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,54% í viðskiptum upp á tæpa 2,2 milljarða. Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,03% í tæplega 3,4 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,03% í 0,5 milljarða viðskiptum en óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,16% í 2,9 milljarða viðskiptum.