*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 17. október 2017 12:50

Lækkun gjalda skilað sér til neytenda

SVÞ segir pólitíska lukkuriddara, sem og hagsmunasamtök launþega og neytenda, hafa reynt að tortryggja verslunina.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að allt frá því að tilkynnt var um afnám almennra vörugjalda og tolla haustið 2014 af þáverandi ríkisstjórn hafi margir haldið því fram að lækkunin myndi ekki skila sér til neytenda.

Segir hann marga hafa reynt því að slá keilur með því að tortryggja verslunina í tilefni þessarar ákvörðunar, en það var síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Bjarna Benediktssonar og Framsóknarflokksins undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tók ákvörðunina um afnám viðskiptahindrananna.

„Þá hafa sum hagsmunasamtök bæði launþega og neytenda ekki látið sitt eftir liggja, en þau hafa hvað eftir annað sett fram fullyrðingar á opinberum vettvangi, þar sem sömu eða svipaðar ávirðingar eru settar fram,“ segir Andrés í grein á vef samtakanna.

„Í þessu efni hefur það litlu sem engu breytt þó að ítrekað hafi verið skýrt út með opinberlega staðfestum gögnum, að niðurfelling vörugjalda og niðurfelling tolla hafi skilað sér til neytenda, í formi lægra vöruverðs. Þeir eru nefnilega ótrúlega margir sem setja sannleikann í annað sæti þegar þeir sjá sér hag í slíku.“

Vill viðbrögð frá samtökum launþega og neytenda

Andrés vísar þar í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem segir að lækkun gjalda virðist hafa að mestu skilað sér í vasa neytenda. „Álagning kaupmanna lækkaði á flestum vörum í krónum talið,“ segir í skýrslunni sem Andrés vísar í og veltir hann í framhaldi fyrir sér hvernig þeir sem hæst hafi látið muni nú bregðast við.

„Í stuttu máli lækkaði smásöluverð þeirra vara sem hér voru til skoðunar um leið og fyrirkomulagi neysluskatta var breytt. Svo virðist sem lækkun gjalda hafi að mestu skilað sér í vasa neytenda.“