Heimavellir lækkuðu um 10,8% í virði fyrsta viðskiptadaginn. Miðast það við að fyrstu viðskiptin í gæ r, fyrsta daginn sem bréfin voru í viðskiptum í kauphöllinni , voru á 1,39 krónur hvert bréf, sem er útboðsgengið frá því í byrjun mánaðarins. Við lok viðskipta í gær voru bréfin komin niður í 1,24 krónur hvert bréf, sem er lækkun um tæplega 10,8%.

Stærstu 20 eigendur Heimavalla eiga samtals 69,78% allra bréfa í félaginu, en þar af eru stærst Stálskip með 8,59%, en það er í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar, Snæból ehf. og Gani ehf. með 7,54% hver. Snæból er eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar en Gani er í eigu Tómasar Kristjánssonar. Sjóvá-Almenntar er svo eigandi að 4,66%, Túnfljót ehf. er með 3,99%, VÍS með 3,89% en aðrir hluthafar eru minni.

Önnur félög sem lækkuðu í kauphöllinni má nefna Eimskip sem lækkaði um 1,82% í 42 milljóna viðskiptum og er gengi bréfa félagsins komið niður í 189,00 krónur. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur verðið ekki verið lægra frá því félagið var skráð á markað síðan þriðjungshluthafi í félaginu hóf söluferli á hlut sínum.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 395 krónur en þau hækkuðu um 0,79% og er gengi bréfanna nú 384,00 krónur. Mest hækkun var hins vegar á bréfum N1, eða um 1,30% í mjög litlum viðskiptum þó.