Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur lækkað um 25% það sem af er ári en verð á olíu hér á landi hefur hins vegar einungis lækkað um 15% að teknu tilliti til gengisþróunar íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali við Vísi að álagning olíufélaganna íslensku lækki ekki í samræmi við lækkun heimsmarkaðsverðs. Vegna hærri álagningar olíufélaganna þá hafi íslenskir neytendur borgað ríflega 100 milljónum meira fyrir eldsneyti í október en ella.

Runólfur segir jafnframt að íslenskir neytendur eigi inni lækkun á eldsneyti, ef tekið sé tillit til þess hve heimsmarkaðsverð hafi lækkað mikið að undanförnu.