Gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að markaðir á Íslandi sveiflist í takt við alþjóðlega fjármálamarkaði. Mest viðskipti á mörkuðum hér á landi eru með skuldabréf en vísitala þeirra hefur ekki breyst að neinu ráði í ágúst. Gengi hlutabréfa hér á landi hefur þó lækkað um 6% í ágúst sem rakið er til lækkunar á verðmæti færeysku kauphallarfélaganna. Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá IFS greiningu, bendir á óskilvirkni gjaldeyrishafta sem endurspeglast líklega best í verðmun á bréfum Össurar í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Mestur var verðmunurinn 20% í viðskiptum í vikunni á milli markaða en sama dag var lokagengið 12% lægra í Kaupmannahöfn en á Íslandi. Eggert segir verðbilið ótengt óróa á markaði og hefur verðbilið verið 10 til 15% í einhverja mánuði. „Össur hefur nær ekkert gefið eftir á sama tíma og hlutabréf hafa verið að lækka verulega víðast hvar.“