Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 0,75% í viðskiptum dagsins í dag og endaði í 1.141,67 stigum. Bréf Haga hækkuðu um 1,27%, en félagið birti ársreikning sinn í dag sem sýndi tæplega þriggja milljarða króna hagnað á síðasta rekstrarári.

Þá hækkaði gengi bréfa Össurs um 0,83% og TM um 0,2%. Hins vegar lækkaði gengi bréfa Marels um 2,46%, Regins um 1,33% og Icelandair um 1,25%. Velta í kauphöllinni nam 3,2 milljörðum króna og þar af nam velta með bréf Eimskips 1,2 milljarði. Bréf Eimskips lækkuðu um 0,38% í dag.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,27% í dag. Verðtryggði hluti hennar hækkaði um 0,23% og sá óverðtryggði um 0,39%. Velta á þeim skuldabréfum sem mæld eru í vísitölunni nam 11,1 milljarði króna og þar af nam velta með óverðtryggð bréf rétt tæpum 10 milljörðum króna.