Hlutabréf lækkuðu á helstu mörkuðum í Asíu í morgun, sjötta daginn í röð, en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja lækkanir dagsins til þess að enn ríki mikil óvissa um skuldavanda ríkja innan ESB – sem síðan kunni að smita út frá sér.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 0,7% í morgun og hefur þar með lækkað um 2,8% það sem af er þessum mánuði. Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 0,8%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 1,1% en í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 0,1% eftir að hafa dansað við núllið allan daginn. Í Suður Kóreu lækkaði Kospi vísitalan um 0,1% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 1,1%.

Í Evrópu hafa hlutabréf þó hækkað það sem af er degi. Að sögn Reuters fréttastofunnar má meðal annars rekja hækkanirnar til óvænts hagnaðar bandaríska álrisans Alcoa en í kjölfarið hafa félög á borð við Norsk Hydro tekið sveiflu upp á við í morgun.

Hlutabréf í Evrópu lækkuðu um 2,5% að meðaltali í gær, og höfðu því fyrir daginn í dag ekki verið lægri síðan í lok janúar, en það sem af er degi hefur FTSEurofirst 300 vísitalan hækkað um 0,4%.

Í Amsterdam, Frankfurt og Lundúnum hafa hlutabréf hækkað á bilinu 0,1-0,8%, í París og Sviss hafa hlutabréf hækkað um 0,3% og á Norðurlöndunum hafa hlutabréf hækkað um 0,3-0,9%.