Helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu í Asíu í morgun og hafa að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ekki verið lægri í sex vikur. Þá hafa helstu hlutabréfavísitölur einnig lækkað í Evrópu það sem af er degi.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 0,4% í dag og hefur nú lækkað fjóra daga í röð. Að sögn viðmælanda Bloomberg má rekja lækkunina til óvissu um aðgerðir yfirvalda á evrusvæðinu en asískir fjárfestar fylgjast sem fyrr grannt með gangi mála í Evrópu.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 0,1%, í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 1,1% og í Hong Kong lækkað Hang Seng vísitalan um 0,7%.

Í S-Kóreu lækkaði Kospi vísitalan um 0,3% og í Ástralíu lækkaði S&P200 vísitalan um 0,6%.

Sem fyrr segir hafa helstu hlutabréfavísitölur lækkað í Evrópu það sem af er degi eftir nokkra hækkun í gær. Að sögn Bloomberg má rekja lækkunina til minni væntinga fjárfesta um framleiðslutölur í Bandaríkjunum. Af þessu og ofangreindu má dæma að helstu markaðir heims hafi haft töluverð áhrif á hvern annan í dag.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 0,6% það sem af er degi. Í Amsterdam hefur AEX vísitalan staðið í stað og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,2%. Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 0,3% og í Zurich hefur SMI vísitalan lækkað um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 0,1%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 0,2% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 0,3%.