Flestir hlutabréfamarkaðir í Asíu lækkuðu í dag. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja lækkunina til lítilla væntinga af fundi fjármálaráðherra Evrópusambandsins (ESB) sem fram fer í dag.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 1% í dag. Markaðir voru lokaðir í Japan í dag en í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 1% eftir viku frí frá opnun markaða þar í landi og í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 0,8%.

Í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1%, í Suður Kóreu lækkaði Kospi vísitalan um 0,7% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 0,3%.

Á vef Bloomberg kemur fram að þau fyrirtæki sem stunda hvað mest viðskipti við Evrópuríki hafi flest lækkað í dag. Fjármálaráðherrar ESB hittast í Lúxemborg í dag til að funda um fjárhagsvandræði Spánar en svo virðist sem asískir fjárfestar hafi litlar væntingar um þann fund ef marka má greiningu og viðmælendur Bloomberg.

Þá hafa hlutabréf lækkað í Evrópu það sem af er degi en að sögn Reuters fréttaveitunnar má rekja lækkunina þar annars vegar til lítilla væntinga af fyrrnefndum fundi fjármálaráðherra ESB í dag en einnig til nýrra talna um að hagvöxtur í Asíu, þá sérstaklega í Kína, verði mun minni á þriðja ársfjórðungi en áður var talið.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur nú lækkað um tæpt prósent það sem af er degi. Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 0,8%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan einnig lækkað um 0,8% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 1,4%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 1,3% og í Zurich hefur SMI vísitalan lækkað um 0,6%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 0,6%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 1,2% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 0,9%.