Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag eftir að hafa náð þriggja mánaða hámarki fyrir helgi. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má helst rekja lækkunina til óstöðugleika í Evrópu en litlar vonir eru bundnar við leiðtogafund Evrópusambandsins sem fram fer í Brussel í dag.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 0,8% í dag. Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 2,1% og í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 0,5%. Í Kína lækkaði CSI300 vísitalan um 1,7%, í S-Kóreu lækkaði Kospi vísitalan um 1,2%n og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 0,4%.

Sem fyrr segir hefst leiðtogafundur Evrópusambandsins í Brussel í dag. Á þessum fyrsta leiðtogafundi ársins er gert ráð fyrir að klára vinnu vegna 500 milljarða evra björgunarsjóðs til handa skuldsettum ríkjum innan evrusamstarfsins. Þrátt fyrir að vinna við stofnun sjóðsins sé nú á lokastigi hefur Bloomberg eftir viðmælendum sínum að enn eigi eftir að koma í ljós hvort hann muni auka trúverðugleik á mörkuðum í Evrópu. Miðað við það sem á undan er gengið binda margir litlar vonir til þess.