Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru fjárfestar í miklu magni að leysa út hækkanir síðustu daga og vikna. Markaðir hafa hækkað í Evrópu að undanförnu þar sem fjárfestar hafa bundið vonir við farsæla lausn á skuldavandamálum Grikklands. Nú liggur lausnin fyrir en samkvæmt helstu fjölmiðlum og greiningaraðilum er ekki búist við því að neyðarlán til Grikklands hafi jákvæð áhrif á markaði næstu daga.

FTSEurofirst 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu fyrirtæki Evrópu, lækkaði um 0,5% í dag. Í Lundúnum, Amsterdam og Frankfurt lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur um 0,6%. Á norðurlöndunum lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur á bilinu 0,2-0,6%.

Í Bandaríkjunum hafa markaðir hins vegar hækkað lítillega það sem af er degi. Þar er þó sömu sögu að segja, þ.e. að margir fjárfestar eru að leysa út hækkanir síðustu daga. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar hefur það þó aðeins orðið til þess að markaðir hafi hækkað. Það sem helst veldur hækkunum dagsins eru góð uppgjör stórra rekstrarfélaga, s.s. Wal-Mart, Kraft Foods, Home Depot og fleiri.

Nasdaq vísitalan stendur þó í stað þegar um tveir tíma eru í lokun markaða vestanhafs. Dow Jones hefur hækkað um 0,3% en hafði um tíma í dag hækkað um 0,5% og fór í fyrsta sinn í langan tíma yfir 13 þúsund stig. Þá hefur S&P500 vísitalan jafnframt hækkað um 0,3% það sem af er degi.