Í fyrstu viðskiptum dagsins hafði Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkað um ríflega 2,5% en nokkru síðar nam lækkunin 1,76%. Hafði þá gengi allra bréfa lækkað í kjölfar mikillar lækkunar víða um heim.

Síðan hefur aðeins dregið úr lækkuninni, og nemur hún nú 1,02% sem og að gengi bréfa Haga hefur eitt félaga hækkað um 0,12% í 60 milljón króna viðskiptum, en ekkki hafa verið mikil viðskipti það sem af er degi í íslensku kauphöllinni.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var lækkun Dow Jones vísitölunnar í Bandaríkjunum í gær sú mesta á einum degi síðan í september 2008. Meira en 7% lækkun Nikkei vísitölunnar í Japan í nótt var jafnframt sú mesta á einum degi síðan árið 1990 en síðan hafa allar helstu vísitölur í Evrópu opnað með töluverðum lækkunum.

Mest lækkun var til að byrja með á gengi bréfa TM, eða um 3,03% í 17 milljón króna viðskiptum, og fóru bréfin niður í 33,55 krónur hvert bréf, en þegar þetta er skrifað standa bréfin í 33,85 krónum og nemur lækkunin 2,17% í 34 milljón króna viðskiptum.

Bréf Icelandair, sem höfðu fyrst lækkað um 2,84% niður í 15,40 krónur, í 46 milljón króna viðskiptum eru nú í 15,70 krónum með 0,95% lækkun í 187 milljón króna viðskiptum.

Viðskipti með bréf Origo hafa einungis numið 20 milljónum í morgun, en þau höfðu lækkað um 2,56% í 10 milljón króna viðskiptum þar sem bréf félagsins fóru niður í 24,70 krónur en nú nemur lækkunin 1,97% ogfæst hvert bréf á 24,85 krónur.

Mest viðskipti hafa verið með bréf Marel, eða fyrir 370 milljónir króna, en bréf félagsins hafa lækkað um 1,02% og niður í 338,50 krónur.