Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,05% í 2,1 milljarða viðskiptum og stendur hún nú í 1.637,50 stigum. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,08% í 4,2 milljarða viðskiptum og stendur hún nú í 1.251,00 stigum.

Icelandair og Nýherji lækkuðu bæði

Icelandair heldur áfram að lækka og nam lækkunin í dag 1,54% í 401 milljón króna viðskiptum svo gengi bréfa félagsins stendur nú í 15,95 krónum. Bréf Icelandair lækkuðu mest í viðskiptum dagsins.

Við lok markaða á þriðjudag var verð bréfa félagsins hins vegar 22,10 krónur, svo lækkunin síðan bréfin hrundu í verði á miðvikudag hefur því verið 27,8% út vikuna.

Hlutfallslega næst mesta lækkun í kauphallarviðskiptum var  á gengi bréfa Nýherja sem hafa hækkað undanfarna daga, og lækkuðu þau um 0,52% í 60 milljón króna viðskiptum.

Fæst hvert bréf félagsins nú á 28,45 krónur, en bréf félagsins stóðu í 23,75 krónur við lok viðskipta á þriðjudag, sem gefur að hækkunin nemur 19,8% til vikuloka.

N1 og Hagar hækkuðu

Mesta hækkunin var á bréfum N1 og nam hún 1,21% í 39 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 125,00 krónur.

Næst mesta hækkunin var síðan á bréfum Haga, sem hækkuðu um 0,79% í 104 milljón króna viðskiptum og er hvert bréf félagsins því verðlagt á 51,20 krónur við lok viðskipta.