Lækkun gengis hlutabréfa Icelandair í viðskiptum dagsins í Kauphöll Nasdaq á Íslandi endaði í 11,39%, en í fyrstu viðskiptum dagsins féll gengið á tímabili um 13%.

Síðdegis í gær var greint frá því að allar líkur yrði á að ekki yrði af bólusetningartilraun Pfizer hér á landi þar sem ná ætti hjarðónæmi. Mikil viðskipti höfðu verið með bréf Icelandair síðustu daga en hávær orðrómur hafði verið um að af rannsókn Pfizer yrði.

Gengi hlutabréfa Kviku banka hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 3,46% í 629 milljóna króna viðskiptum. Næstmest hækkaði gengi tryggingafélagsins TM, eða um 2,2% í 126 milljóna króna veltu.

Líkt og undanfarið var mest velta með bréf Arion banka en heildarvelta viðskipta dagsins með bréf bankans nam tæplega 2,1 milljörðum króna. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 6,1 milljörðum króna.

Gengi úrvalsvísitölunnar OMXI10 hækkaði um 1,08% á nýloknum viðskiptadegi og stendur í kjölfarið í 2.898,32 stigum.