Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,8% frá fyrri mánuði en síðastliðna þrjá mánuði hefur hún hækkað um 3,3%. Á tólf mánaða tímabili hækkaði vísitalan um 5,1% en hún sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs.

Þinglýstir voru 605 leigusamningar í maí

Þjóðskrá tók vísitöluna saman og byggir hún á 394 samningum af þeim 605 samningum í leigugagnagrunni stofnunarinnar sem þinglýstir voru í maí 2016. Er sleppt þeim samningum sem eru eldri en 60 daga við þinglýsingu, samningum þar sem herbergjafjölda íbúða er ekki þekktur, samningum um félagslegar íbúðir og fleira.

Við útreikningana er reiknað meðalfermetraverð fyrir sex flokka íbúðarhúsnæðis en fer skipting þeirra eftir herbergjafjölda og staðsetningu. Er svo niðurstaðan vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði síðustu 12 mánuði á undan.