*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 2. desember 2019 16:12

Lækkun morgunsins gekk mikið til baka

Eftir eldrauðan morgun í kauphöllinni virðist sem markaðurinn hafi róað sig. Engin lækkun yfir 1,5%.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,60% í 3,4 milljarða heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag, og fór hún í 2.116,94 stig.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun tók hlutabréfamarkaðurinn dýfu í morgun í kjölfar fregna um að íslenski markaðurinn kæmist ekki inn á lisa MSCI yfir vaxtamarkaði, en hún virðist hafa gengið nokkuð til baka.

Þannig hækkuðu 8 af 20 félögum á Aðallistanum þegar dagurinn var liðinn, eitt stóð í stað og 11 lækkuðu. Mesta lækkunin var 1,41%, en í morgun höfðu þrjú félög hækkað um meira en 3%, þrjú til viðbótar yfir 2% og tvö til viðbótar rétt undir því.

Þegar upp var staðið var það Icelandair sem lækkaði mest, eða um 1,41% eins og áður segir, niður í 7,70 krónur, í þó ekki nema 59 milljóna króna viðskiptum. Marel lækkaði næst mest, eða um 1,30%, niður í 608,0 krónur, í 436 milljóna króna viðskiptum sem jafnframt eru þau mestu með eitt félag sem voru í dag.

Þriðja mesta lækkunin var með gengi bréfa Festa, eða 1,12%, niður í 133,0 krónur, í 419 milljóna viðskiptum sem jafnframt eru þau næstmestu. Festi hafði lækkað mest fyrst í morgun, eða um 3,35%.

Gengi bréfa Eimskipafélagsins hækkaði langmest, eða um 5,90%, í 159 milljóna króna viðskiptum og fór það í 170,50 krónur, en Viðskiptablaðið greidi frá hálfs milljarðs króna endurkaupaáætlun félagsins. Sýn hækkaði næst mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,49%, í 239 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi bréfa félagsins 32,90 krónur.

Krónan veiktist í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum. Gengi svissneska frankans styrktist mest gagnvart krónunni, eða um 0,85%, og er kaupgengi hans nú 121,99 krónur. Bandaríkjadalur styrktist um 0,24%, fór í 121,21 krónu, evran um 0,67%, fór í 134,16 krónur og borska krónan um 0,77%, fór í 13,224 krónur.