Lægra raforkuverð á mörkuðum hægir á stefnu Landsvirkjunar um uppbyggingu á hærra verði. Ýmis atriði hafa orðið til þess að hækka raforkuverð að undanförnu, þar á meðal nýting nýrrar tækni við gasvinnslu í Bandaríkjunum sem hefur aukið framboð á ódýru gasi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Landsvirkjun hefur þá stefnu að hækka raforkuverð miðað við það sem áður hefur verið samið um. Viðmiðunarverð fyrirtækisins er 43 dollarar á megavattsstund, sem er nokkru hærra en býðst í Bandaríkjunum í dag samkvæmt Fréttablaðinu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, fullyrðir hins vegar í samtali við Fréttablaðið að fyrirtækið bjóði langbesta verðið. Líta verði til lengri tíma og enginn byggi verksmiðju án þess að fá 15 ára samning: "43 dollarar eru viðmiðunarverð hjá okkur og síðan afslátt fyrstu 5 árin vegna markaðsað stæðna. Það er langbesta verðið sem menn fá nokkurs staðar." Hann hefur ekki áhyggjur af því að fyrirtæki verði áfram í Bandaríkjunum eða reisi nýjar verksmiðjur þar.

"Við bjóðum 43 dollara í 15 ár, en þessi verð upp á 30 til 40 dollara eru bara út árið og fást ekki einu sinn í 5 ára samninga," segir Hörður sem bendir einnig á að gasið fáist fyrir ekki neitt í dag, þar sem offramboð sé á því. Það sé hins vegar til skamms tíma og geti breyst."Áhrifin eru helst þau að menn fresta lokunum á fyrirtækjum í Bandaríkjunum og ákveða kannski að opna gamla verksmiðju. En menn ákveða ekki að byggja nýjar verksmiðjur," segir Hörður enn fremur.