Verði 200 milljörðum króna varið í að lækka fasteignaskuldir heimilanna gæti það aukið hagvöxt um 0,3 til 0,5 prósentustig á ári, að mati IFS Greiningar. Verði 200 milljörðum til viðbótar varið í að lækka skuldir ríkissjóðs gætu áhrif til aukins hagvaxtar numið á bilinu 0,5 til 1,5 prósentustigum á ári.

IFS fjallar í nýlegri greiningu um mismunandi leiðir til að nota innlendar krónueignir erlendra kröfuhafa, að því gefnu að hægt sé að fá þær á þeim 75% afslætti sem talað er um. Farið er yfir þrjár sviðsmyndir. Sú fyrsta gerir aðeins ráð fyrir því að 200 milljörðum sé varið í að lækka húsnæðisskuldir heimilanna. Önnur sviðsmyndin gerir ráð fyrir slíkri skuldaniðurfellingu og að til viðbótar verði 200 milljörðum varið í að lækka skuldir ríkissjóðs. Í þriðju sviðsmyndinni er 200 milljarða króna opinberum fjárfestingum bætt við.

Óljós áhrif á einkaneyslu

Hvað varðar fyrstu sviðsmyndina er bent á að fasteignaskuldir heimilanna hafi verið um 1.152 milljarðar í árslok 2011 og og vaxtagreiðslur af þeim hafi verið um 100 milljarðar á ári. Verði skuldirnar lækkaðar um 200 milljarða ættu vaxtagreiðslur að fara niður í 85 milljarða á ári. Gera megi ráð fyrir því að vaxtabætur lækki um þrjá milljarða á ári og miðað við þetta gæti einkaneysla aukist um 12 milljarða á ári.

Þó er tekið fram að verulegur hluti þessara fjármuna muni að öllum líkindum ekki leita í einkaneyslu, þar sem stór hluti þeirra sem fá niðurfærslu skulda sé með það miklar ráðstöfunartekjur fyrir að aukning þeirra leiti frekar í sparnað en einkaneyslu. Þá megi gera ráð fyrir því að einhverjum hluta einkaneyslunnar nú sé haldið uppi af aukinni skuldsetningu og því sé ekki hægt að útiloka að aukning einkaneyslu verði enn minni. Hins vegar geti margfeldisáhrif þegar til lengri tíma verið umtalsverð.

Vegna margfeldisáhrifanna og jákvæðra væntinga megi reikna með marktækum áhrifum á fasteignamarkað. Skuldsetning verður að meðaltali minni með tilheyrandi rýmri veðstöðu og nokkuð örugglega hækkun á fasteignaverði. Afleidd áhrif á aðra eignamarkaði ættu fyrst að koma fram á vaxtamörkuðum í formi aukinnar eftirspurnar eftir lánsfjármagni með tilheyrandi þrýstingi til hækkunar ávöxtunarkröfu. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði ætti að dragast saman.

Í sviðsmynd IFS mun verðbólga væntanlega aukast að einhverju marki og eru verulegar líkur taldar á því að stýrivextir verði hækkaðir strax eða mjög fljótlega í kjölfar slíkra frétta.

Spá batnandi lánshæfi ríkisins.

Ef ríkið getur einnig lækkað eigin skuldir, sbr. aðra sviðsmynd, ætti vaxtaskostnaður ríkisins að lækka um 10 til 15 milljarða króna á ári. Bent er á að öfugt samhengi hefur verið milli beinna skulda ríkissjóðs og fjármunamyndunar í hagkerfinu. Því megi gera ráð fyrir meiri fjárfestingu ef skuldir ríkissjóðs verða lækkaðar. Það muni minnka atvinnuleysi og hugsanlega auka skatttekjur ríkisins. Bæði þessi atriði, aukning einkaneyslu og hækkanir á fasteignamarkaði muni auka verðbólgu að einhverju leyti. Spáir IFS því að verði þessi leið farin muni stýrivextir hækka um 1,0 til 2,0 prósentustig. Eina sem gæti komið í veg fyrir slíkt sé að fjárlagapólitík sé beitt með öfugum formerkjum af fullum skriðþunga. Þá spáir IFS því að þessi leið muni enn minnka ávöxtun á hlutabréfamarkaði.

Hvað varðar þriðju sviðsmyndina telur IFS afar ólíklegt að farið verði í svo umfangsmiklar opinberar fjárfestingar. Meiri líkur séu á því að ef fjárhagslegt svigrúm sé til þá verði féð frekar notað til að greiða skuldir ríkissjóðs enn frekar niður.

Heilt yfir muni aðgerðir sem þessar bæta lánshæfi íslenska ríkisins og opna fyrir aðgengi að erlendum lánamörkuðum. Mikilvægri hindrun í afnámi hafta væri þar með úr vegi.