Gengisveiking krónunnar að undanförnu veldur Seðlabankanum ekki áhyggjum, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann segir bankann þó þurfa að fylgjast náið með ýmsum tímabundnum þáttum áður en hægt er að kveða úr um hvort lækkunin sé varanleg og hvort hafa þurfi frekari áhyggjur af henni.

Hvað varðar ótímabundna þætti segir Már áhættuleiðréttan vaxtamun við útlönd hafa minnkað töluvert sem gæti haft áhrif til lækkunar.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 3,25%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum lækka í 4,0%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 4,25% og daglánavextir lækka í 5,25%.