Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,9% í janúar og mælist tólf mánaða verðbólga 1,8%. Er það lægsta verðbólga í sjö ár. Vísitalan lækkaði nokkru meira en greiningaraðilar töldu. Spár þeirra lágu á bilinu -0,6 til -0,8%.

Fjallað er um verðlagsþróun í Markaðsvísi MP banka í dag. Segir að spá greiningardeildar bankans hafi gert ráð fyrir 0,6% lækkun. Skekkjan skýrist fyrst og fremst að meiri lækkun húsnæðisverðs og lækkun fargjalda í utanlandsflugi.

Gefur tilefni til stýrivaxtalækkunar

Segir í Markaðsvísi að áframhaldandi lækkun verðbólgunnar gefi að öðru óbreyttu tilefni til frekari lækkunar stýrivaxta. Næsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans er 2. febrúar. Spáp er 0,25 til 0,5 prósenta vaxtalækkun í Markaðsvísi .

Undanfarið hafa vaxtaákvarðanir byggst að miklu leyti á nýlegri verðbólguþróun og gengi krónunnar. Áframhaldandi lækkun verðbólgu gefur að öðru óbreyttu tilefni til frekari lækkunar stýrivaxta. Þó verður að taka tillit til þess að 0,4% lækkun vísitölunnar, tæpur helmingur breytingarinnar, stafar af þeirri merkilegu ákvörðun Hagstofunnar að lækka afnotagjald niður í núll þegar verið er að hækka það. Eins og fram hefur komið byggist þessi ákvörðun Hagstofunnar á því að gjaldið sé ekki lengur tengt notkun og teljist þar með til almennrar skattheimtu. Það er skiljanlegt en þá væri rétt að taka það jafnframt út úr grunni vísitölunnar. Það er ekki gert og er gjaldið fært niður í 0 kr. og vísað í sambærilegan gjörning í Hollandi þegar afnotagjald þar í landi var afnumið (og því í reynd fært niður í 0). Að auki hefur gengi krónunnar veikst um rúm 3% á árinu og væntanlega styttist í næstu skref til slökunar gjaldeyrishafta. Við eigum því von á 0,25 til 0,5 prósenta vaxtalækkun í febrúar sem gæti orðið sú síðasta í þessu lækkunarferli.“