Ef ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna yrði lækkað í 3,0% þyrfti að skerða réttindi og/ eða hækka iðgjald. Þessar breytingar gætu hins vegar gengið til baka þegar fram líða stundir ef raunávöxtun sjóðanna væri um eða yfir 3,5% þrátt fyrir lækkun á viðmiðinu. Kom þetta meðal annars fram í máli Gylfa Magnússonar á fundi Íslenskra verðbréfa um ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna í síðustu viku.

Sagði hann að að öðru leyti mætti ætla að lækkun á ávöxtunarviðmiðinu yrði eftirfarandi: Skerðingin kæmi harðast niður á núverandi lífeyrisþegum og þeim sem fljótlega fara á eftirlaun. Hærri iðgjöld, þ.e. aukinn sparnaður, myndi draga úr heildareftirspurn sem leiði til betri viðskiptajafnaðar, en seinki hagvexti. Vextir í landinu myndu lækka vegna aukins sparnaðar og það geti aukið hagvöxt til lengri tíma litið og bætt hag skuldara. Hagur hins opinbera myndi hins vegar versna vegna lægri skatttekna.

Gylfi telur að lægra ávöxtunarviðmið yrði einnig líklegt til að breyta fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Vægi hlutabréfa í eignasafni þeirra myndi minnka og skuldabréfa aukast. Þetta myndi leiða til þess að ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði lækkaði en myndi hækka á hlutabréfamarkaði auk þess sem gengi krónunnar myndi hækka. Hann tekur þó fram að engin þessara áhrifa yrðu sterk.

Ítarlega er fjallað um ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.