Sú lækkunarhrina sem einkenndi gengi krónunnar á fyrstu vikum ársins virðist vera lokið, enda mátti telja líklegt að þar væru tímabundnir þættir að verki. Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag. Gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt að undanförnu.

Greining segir að meðal tímabundinna þátta hafi verið talsverð inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undir lok síðasta árs og árstíðabundnar sveiflur á gjaldeyrisflæði til landsins. „Nú við opnun markaða í morgun stóð gengisvísitala krónunnar í 214,60 stigum sem er svipað og gildi hennar hefur verið frá því um miðjan febrúar síðastliðinn. Á því tímabili hefur þróunin þó verið aðeins mismunandi á milli undirliggjandi mynta,“ segir Greining.

Umfjöllun Greiningar Íslandsbanka:

„Evran sem vegur rúm 40% gengisvísitölunnar kostaði nú í morgun tæpar 163 krónur en um miðjan febrúar síðastliðinn var hún á rúmar 159 krónur. Jafngildir þetta veikingu krónunnar gagnvart evru upp á rúm 2%. Á sama tímabili hefur gengi krónunnar gagnvart hinni norsku veikst um rúm 3% og kostar norska krónan nú tæpar 21 íslenskar krónur. Á móti þessu hefur krónan á hinn bóginn styrkst gagnvart Bandaríkjadollar, breska pundinu og japanska jeninu. Nú í morgun stóð Bandaríkjadollar í rúmum 114 krónum en um miðjan febrúar var hann á rúmar 118 krónur og hefur krónan þar með styrkst um rúm 3% gangvart dollaranum. Á sama tíma hefur krónan styrkst um rúm 2% gangvart breska pundinu sem nú kostar tæpar 186 krónur. Japanska jenið hefur sveiflast einna mest gagnvart krónunni á þessu tímabili sem má rekja til þeirra miklu jarðhræringa sem áttu sér stað í Japan í síðasta mánuði. Þó hefur gengi krónunnar aðeins styrkst um tæp 3% gangvart jeninu frá því um miðjan febrúar enda hefur japanska jenið verið að styrkjast nokkuð gagnvart öðrum myntum í á hálfa aðra viku. Kostar jenið nú rúmar 1,38 krónur. Þess má geta að japanska jenið hefur farið hæst í rúmar 1,50 krónur og lægst í 1,32 krónur á síðasta mánuði.

Ágætis velta á millibankamarkaði

Þó nokkur velta hefur verið á millibankamarkaði með gjaldeyri það sem af er aprílmánuði. Þannig nemur heildarveltan á millibankamarkaði frá 1. til og með 15. apríl um 4.078 m.kr. og eru viðskipti Seðlabanka Íslands þar af um 488 m.kr., eða sem jafngildir rétt um 12% af heildarveltunni. Nú þegar er heildarveltan orðinn meiri í apríl en hún var í öllum marsmánuði og ekki er ólíklegt að viðskiptin verða jafnvel meiri en þau voru í febrúar síðastliðnum en þá nam heildarveltan 5.882 m.kr. og hafði þá ekki verið jafn mikil síðan í nóvember árið 2009. Er hér augljóslega undanskilin veltan í desember síðastliðnum þegar Seðlabankinn keypti umtalsvert af gjaldeyri til þess að draga úr gjaldeyrismisvægi fjármálastofnana og auka óskuldsettan gjaldeyrisforða bankans. Nam heildarveltan á millibankamarkaði þá um 27.513 m.kr. og voru viðskipti Seðlabankans þar af 93%.“