Stjórn Læknafélags Reykjavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu þar stefna heilbrigðisráðuneytisins þess efnis að endurnýja ekki rammasamninga við sérfræðilækna er harðlega gagnrýnd.

Heilbrigðisráðuneytið hefur í rúm tvö ár með ítrekuðum bréfaskriftum bannað Sjúkratryggingum Íslands að hleypa nýjum sérfræðilæknum inn á rammasamning SÍ og Læknafélags Reykjavíkur burtséð frá því hvort skortur sé á læknum í viðkomandi sérgrein. Það er skýrt brot á samningnum, segir í yfirlýsingunni.

Nú hefur ráðuneytið úrskurðað í stjórnsýslukæru taugalæknis sem var synjað um aðkomu að samningnum án mats á þörfinni. Niðurstaðan var sú að ráðuneytið taldi ekkert athugavert við málsmeðferðina.

Læknafélag Reykjavíkur vill benda á eftirfarandi:

  1. Í upphaflegri afgreiðslu SÍ og ráðuneytisins  var rammasamningurinn brotinn þar sem ekki var leitað til samráðsnefndar LR og SÍ sem samkvæmt samningnum hefur það hlutverk að úrskurða hvort þörf er fyrir nýja lækna.
  2. Heilbrigðisráðuneytið var auk þess vanhæft að úrskurða sjálft í stjórnsýslukærunni. Ráðuneytið er gerandi í málinu og hefði átt að segja sig frá málsmeðferðinni.
  3. Að auki er úrskurðurinn í stjórnsýslukæru þeirri sem hér um ræðir rangur og tekur ekki á kjarna málsins sem er hrópandi þörf fyrir lækna í ákveðnum sérgreinum eins og taugalækningum í þessu tilviki.
  4. Úrskurður ráðuneytisins og framganga öll bitnar hart á ákveðnum sjúklingahópum sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.

Nú hefur 17 læknum í 13 sérgreinum verið meinuð aðild að rammasamningi SÍ og LR. Í að minnsta kosti 9 þessara sérgreina er mikill skortur á sérfræðilæknum og löng bið fyrir sjúklinga. Hér er því alls ekki um einangrað mál að ræða sem varðar eina sérgrein eða einn sjúklingahóp.