Blikur eru á lofti í kjaramálum. Á næstu dögum kemur forsendunefnd Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar saman til að fara yfir það hvort kjarasamningarnir sem gerðir voru á almenna markaðnum haldi. Þá eru að losna nokkrir stórir samningar á opinbera markaðnum. Fyrst ríða læknar á vaðið en samningur Læknafélags Íslands og ríkisins losnar 30. apríl. Síðast þegar læknar áttu í kjaraviðræðum fóru þeir í verkfall.

Í lok ágúst losnar samningur Skurðlæknafélags Íslands og á sama tíma fellur gerðardómur átján aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga úr gildi. Félag grunnskólakennara samdi til eins árs í lok nóvember síðastliðins en þá höfðu kennarar í tvígang fellt kjarasamninga. Samningar félagsins losna því í lok nóvember á þessu ári.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, segir að viðræð- ur við samninganefnd ríkisins séu ekki hafnar og engin viðræðu- áætlun verið gerð. Hann segist þó eiga von á að viðræður hefjist fyrr en seinna enda sé ekkert mjög langur tími til stefnu.

„Við erum að móta okkar kröfugerð þessa dagana,“ segir Þorbjörn. „Svona fyrirfram þá leggjast þessar viðræður ekkert illa í mig. Á þessum tímapunkti er ótímabært að segja í hvaða dúr okkar kröfur verða eða hvort samið verður til langs eða skamms tíma. Ég get þó sagt að ég á ekki á von á að læknar búist við 44% launahækkun eins og helstu ráðamenn fengu með úrskurði kjararáðs.“

Forsendur samninga

  1. Í febrúar skal forsendunefnd SA og verkalýðshreyfingarinnar fjalla um það hvort þær stjórnvaldsákvarðanir og lagabreytingar, sem heitið er og fram koma í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. maí 2015 hafi náð fram að ganga.
  2. Í febrúar skal nefndin meta hvort sú launastefna og þær launahækkanir, sem í samningnum felast, hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði.
  3. Í febrúar skal nefndin fjalla um hvort markmið samningsaðila um aukinn kaupmátt launa hafi gengið eftir. Forsendunefndin skal tilkynna fyrir lok febrúar hvort þessar forsendur hafi staðist.

Forsendubrestur

Að því gefnu að forsendur kjarasamninga á almenna markaðnum haldi þá gilda samningarnir til loka næsta árs.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og varaforseti Alþýðusambands Íslands, segir ljóst að forsendan um aukinn kaupmátt standist. Aftur á móti sé verið að bíða eftir tölum frá Hagstofunni um launaþróun og því sé enn óvíst hvort sú forsenda standist.

„Það sem liggur fyrir í dag er að það er forsendubrestur hvað varðar loforð stjórnvalda um að fjármagna byggingu 600 íbúða í almenna íbúðakerfinu. Það finnst ekkert um þetta í fjárlögum og ef ekki verður bætt við auknu fé í þessa uppbyggingu þá eru forsendur kjarasamninga brostnar. Stjórnvöld hafa nú ekki langan tíma til stefnu því forsendunefndin mun fara yfir þessi mál í lok mánaðarins. Síðan er náttúrlega mikil óánægja hjá okkar félagsmönnum með niðurstöðu kjararáðs.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .