Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ræddi stuttlega um stöðu Landspítala í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark. Hann telur spítalann á slæmum stað og að hann virki ekki sem skyldi. Kári, sem stóð fyrir undirskriftasöfnun fyrir kosningarnar árið 2016 til að kalla eftir auknu framlagi frá ríkinu í spítalann, segir að fjárþörf sé ekki það eina sem Landspítali þurfi.

„Það er ekki góður andi meðal lækna á staðnum. Það vantar þennan liðsanda sem gerir það að verkum að svona stofnun geti raunverulega skilað því sem ætlast er til. Ég held því fram að læknastéttin beri ein og alfarið ábyrgð á því að spítalinn sé ekki á betri stað en raun ber vitni.

Þetta er stétt sem er alveg gífurlega vel mönnuð. Við erum með alveg frábæra lækna í íslensku samfélagi, alveg gífurlega vel menntaða og þjálfaða menn sem eru fullir af samhygð með sínu samfélagi. En þeim hefur mistekist að skipuleggja sig sem hóp, sem teymi, til að bera þennan spítala almennilega á herðum sér.“

Willum „alveg frábær heilbrigðisráðherra“

Kári segir að læknisfræði byggi fyrst og fremst á þekkingu, samhygð og aga. Að hans mati gengur illa að halda uppi þeim aga á Landspítala sem þörf er á.

Með átaki nýs forstjóra, Runólfs Pálssonar, og nýskipaðrar stjórnar, sem Björn Zoëga leiðir, muni ástandið þó batna. Hann segir að verkefni nýs forstjóra og nýrrar stjórnar sé að byggja upp liðsanda og gæða spítalann þannig nýju lífi.

Sjá einnig: Kári algjörlega ósammála Þórólfi

„Það er dálítið áhugavert að sá andi sem ég tel að við þurfum þar er samskonar og þú þarft á að halda í hópíþróttum. Þú þarft að sannfæra þetta fólk, segja þessu fólki nógu oft að það sé best og þá verður það best,“ segir Kári. Hann hafi lært það á sínum ferli að í stórum verkefnum skipti liðsandinn oft mestu máli.

Hann bætir við að reynsla Willums Þórs Þórssonar sem knattspyrnuþjálfari muni reynast honum vel en Kári telur hann vera „alveg frábæran heilbrigðisráðherra“.