Óhætt er að segja að vestfirski lækningavöruframleiðandinn Kerecis sé eitt mest spennandi nýsköpunar- fyrirtækið á Íslandi í dag. Starfsemi félagsins felur í sér framleiðslu á afurðum sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði, sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur en sýnt hefur verið fram á að roðið hefur jákvæð áhrif á frumuinnvöxt. Lykilvara Kerecis í dag er sáraroð sem notað eru til meðhöndlunar á brunasárum og þrá- látum sárum vegna sykursýki.

Á síðustu tveimur árum hafa tekjur fyrirtækisins margfaldast en þær námu 7,8 milljónum dollara á síðasta reikningsári sem lauk í lok september 2019. Miðað við áætlanir félagsins er sala þess þó ennþá á ær byrjunarreit en gert er ráð fyrir að þær ríflega þrefaldist á þessu ári og verði árið 2022 orðnar 92 milljónir dollara sem jafngildir rúmlega 12 milljörð- um íslenskra króna. Þá hefur fyrirtækið síðustu ár fengið fjölda nýsköpunarverðlauna auk þess sem fyrirtækið hefur nýverið fengið rannsóknarstyrki að andvirði rúmlega 500 milljóna króna.

Þrátt fyrir að tekjuvöxtur Kerecis sé nánast ennþá í startholunum er fyrirtækið þó orðið meira en 10 ára gamalt en það var stofnað árið 2009 af Guð- mundi Fertram Sigurjónssyni ásamt læknunum Hilmari Kjartanssyni, Baldri Tuma Baldurssyni og einkaleyfalögfræðingnum Ernest Kenney.

Fyrstu rannsóknir fyrirtækisins, sem fram fóru í rannsókna- stofu á Ísafirði, voru unnar með fjármagni frá Tækni- þróunarsjóði en niðurstöður þeirra rannsókna leiddu svo til þess að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í fyrirtækinu og í kjölfarið komu inn fyrstu einkafjárfestarnir en þeirra á meðal voru Hraðfrysti- húsið-Gunnvör í Hnífsdal, fiskþurrkunarfyrirtækið Klofningur á Suðureyri auk fjárfestingafélags á vegum m.a. Björgólfs Thor og Sigurbjarnar Þorkelssonar. Það fjármagn var svo notað til að fjármagna ferlið við að fá markaðsleyfi í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir vörur fyrirtækisins.

Árið 2013 kom bakslag í framgang fyrirtækisins en þá hafnaði bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) umsókn fyrirtækisins sem varð til þess að skala þurfti starfsemina niður og var allt fjármagn sem eftir var nýtt í frekari rannsóknir til að uppfylla skilyrði FDA sem veitti svo leyfið árið 2015. Í viðtali við Markaðinn frá því í janúar síðastliðnum segir Guðmundur að þegar leyfið lá fyrir hafi Kerecis ráðist í það verkefni að koma vörum fyrirtækisins inn hjá Medicare, tryggingafélagi bandaríska ríkisins, sem tókst og markaði tímamót fyrir Kerecis en áður höfðu tekjur þess verið sáralitlar.

Árið 2017 var starfsemi fyrirtækisins svo skipt í þrennt sem felur í sér að höfuðstöðvar fyrir sölu- og markaðsstarf er Arlington í Virginíuríki í Bandaríkj- unum, rannsóknir og þróun fer fram í Reykjavík á meðan framleiðslan fer fram á Ísafirði. Meginástæða þess að Kerecis hefur lagt áherslu á Bandaríkjamark- að, þaðan sem tekjuvöxtur fyrirtækisins hefur að mestu komið frá, er sú að sykursýki er töluvert meira vandamál þar í landi en í Evrópu. Í dag er um einn af hverjum ellefu Bandaríkjamönnum með sykursýki en gert er ráð fyrir að hlutfallið verði orðið einn af hverjum þremur árið 2050. Því til viðbótar sagði Guðmundur í áðurnefndu viðtali að greiðsluleiðir fyrir vöru með öfluga virkni væru mun ábatasamari í Bandaríkjunum en hinu megin við Atlandshafið.

Blása til sóknar

Ljóst er að Kerecis hyggst blása til sóknar á næstu misserum en á síðasta ári lauk félagið 16 milljóna dollara fjármögnun sem verður að mestu leyti nýtt til uppbyggingu á sölu og markaðsstarfi félagsins en gert er ráð fyrir að fjölga starfsmönnum í Bandaríkjunum úr 38 í 180 árið 2022. Fjármögnunin fór fram með útgáfu nýs hlutafjár og umbreytingu skulda en miðað við gengi bréf í hlutafjárhækkuninni er félagið metið á ríflega 12 milljarða króna. Í byrjun febrúar greindi Kerecis svo frá því að fyrirtækið hefði gert samning við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna um fjármögnun á áframhaldandi prófunum og þróun á sáraroði til með- höndlunar á bruna- og sprengjusárum á hamfarasvæðum. Nam styrkupphæðin um einni milljón dollara.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .