Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis hefur gert samning við alþjóðafyrirtækið Medline Industries um dreifingu á MarGen Omega3-vörum til meðhöndlunar á þrálátum sárum. Kerecis vinnur að þróun á meðferðarúrræðum fyrir vefjaskaða, sem byggir á Omega3-tækni og hagnýtingu á fiskiroði.

Þetta er fyrsti samningurinn um dreifingu á vörunni erlendis sem Kerecis gerir. Til að byrja með mun Medline selja sáravöru Kerecis í Bretlandi og í Mið-Austurlöndum.

Kerecis hefur undanfarið ár selt einfaldari vöru á íslenskum markaði í formi krema sem byggja á Omega3 tækni félagsins. Um er að ræða fjögur krem sem seld eru í apótekum undir vörumerkinu MariCell. Kremin eru meðhöndlunarefni fyrir ofurþurra húð, psoríasis, exem og húðhárhnökra (keratosis pilaris).

Samkeppni á 900 milljóna dala markaði

Í tilkynningu frá Kerecis segir m.a. að MariGen Omega3 er fiskiroð sem unnið hefur verið á þann hátt að engar frumur eða ofæmisvaldandi efni eru lengur til staðar í efninu. Eftir stendur stoðefni sem líkist roði og inniheldur Omega3 og önnur náttúruleg byggingarefni roðs. MariGen Omega3 er lagt beint ofaní sár sem síðan er búið um með hefðbundum sáraumbúðum. Frumur líkamans vaxa inní efnið og breyta því að lokum í heilbrigða húð.

Í tilkynningunni er ekkert komið inn á hugsanlegt verðmæti samningsins. Hins vegar er bent á að MariGen Omega3 keppi á markaði sem er um 900 milljón Bandaríkjadala að stærð og eru meginsamkeppnisvörur þess unnar úr vef svína sem og mannshúð.

Medline er leiðandi dreifingaraðili á lækningarvörum og þjónustu á heimsvísu. Ársvelta Medline er um 5 milljarðar bandaríkjadala og er fyrirtækið með starfssemi í 90 löndum og rekur í þeim 48 dreifingarstöðvar.