Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi efasemdir um að það standist stjórnarskrárbundin réttindi að leggja takmarkanir á viðskipti manna með þeim hætti að eitt greiðsluform, reiðufé, sé bannað með einhverjum hætti. Í skýrslu um svarta hagkerfið var lagt til að 10 þúsund króna seðillinn verði tekinn úr umferð og í kjölfarið 5 þúsund króna seðillinn til að berjast gegn skattsvikum.

„Ég held að það séu allir sammála um það, að við þurfum að taka okkur á þegar kemur að kemur að undanskotum skatta, hvaða formi sem það er í. Við höfum til þess mörg verkfæri, en við getum auðvitað ekki beitt hvaða meðölum sem er. Við verðum að gæta meðalhófs og við þurfum að fara varlega í það, að grípa til aðgerða sem að með einhverju hætti ganga á lögvarin réttindi einstaklinga og fyrirtækja,“ segir Óli Björn. „Að svo komnu máli hef ég mjög miklar efasemdir um það að leggja takmarkanir á viðskipti manna með þeim hætti að eitt greiðsluform, reiðufé, sé bannað með einhverjum hætti,“ bætir formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við.

Óli Björn segir enn fremur að hann haldi að þarna sé of langt gengið og að hann eigi eftir að sjá hvernig ráðherra útfæri þessar hugmyndir sínar. „Menn verða að passa það sem menn geta ekki beitt öllum þeim meðölum sem þeir vilja, þar sem að lækningin gæti orðið verri en sjúkdómurinn,“ segir Óli Björn að lokum.

Drakónísk nálgun

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Viðskiptablaðið, að nálgun fjármálaráðherra sé röng. „Hún gengur út frá því að öll viðskipti séu að einhverju leyti óeðlileg og er því nálgunin drakónísk í sjálfu sér. Með henni fylgir aukið eftirlit og er hún illframkvæmanleg. Það er ólíklegt að hún nái tilætluðum árangri,“ segir Teitur Björn.

Hann segir þó mikilvægt að berjast gegn skattsvikum með öllum tilhlýðilegum ráðum. „Það er því fagnaðarefni að þessi mál séu tekin föstum tökum. Teitur segir að það séu aðrar leiðir sem eru betur til þess fallnar: „Að gera eftirlitið skilvirkara. En það miðar að sjálfsögðu að því að skattkerfið í heild sinni verði almennt gegnsætt og skattar almennt tilhlýðilegir, sanngjarnir og réttlátir. Þannig er bæði dregið úr hvötum til skattaundanskots og eftirlitið verður betra. Það er líklegast að það leiði til þess að menn rannsaki raunverulega eitthvað misferli þar sem það á sér stað. Það einfaldar einnig sönnunarbyrði og sakfellingu,“ segir hann að lokum.