„Við höfum farið í miklar breytingar í Valitor en eins og fram hefur komið var félagið til langs tíma að tapa miklum fjármunum. Núna höfum við náð góðum viðsnúningi í rekstrinum og dregið verulega úr tapinu," segir Herdís Fjeldsted. Hún hefur tekið ótímabundið við sem forstjóri Valitor eftir að hún settist í forstjórastólinn tímabundið í vor.

„Fyrstu árin eftir menntaskóla var ég í ýmsum störfum, meðal annars hjá Icelandair, en eftir að ég klára BS í viðskiptafræði árið 2004 fór ég að vinna hjá Thule Investments, sem ráku Brú Venture Capital-sjóðina. Starfið fól í sér að skoða fyrirtæki í alls kyns geirum, kaupa í þeim og vinna með fjárfestingarnar, og loks selja eignir. Á sama tíma byrjaði ég að setjast í stjórnir ýmissa fyrirtækja sem gaf mér mikla reynslu."

Þaðan fór Herdís til Framtakssjóðs Íslands sem stofnaður var af sextán lífeyrissjóðum í kjölfar bankahrunsins, en seinna bættust Landsbankinn og VÍS í hópinn.

„Það var gríðarlega mikill lærdómur að vinna með sjóðnum og því góða fólki sem þar var. Það gleymist oft að á þessum tíma var ekki mikil tiltrú á Íslandi og við vorum að vinna með eignir sem voru mikið til fjármagnaðar af erlendum bönkum. Það var erfitt að sækja endurfjármögnun erlendis enda vorum við í fjármagnshöftum þegar þetta var," segir Herdís sem tók svo við stjórn sjóðsins árið 2014.

„Markmið Framtakssjóðsins var mjög skýrt, að horfa til eigna sem voru í vandræðum eftir hrunið, og skoða hvernig við gætum gert þær arðbærar. Inn í sjóðinn komu níu eignir sem flestar höfðu lent inni í bönkunum og þurftu rekstrarlega og/eða fjárhagslega endurskipulagningu. Við þurftum síðan að setjast yfir mikla stefnumótunarvinnu með hvert eitt og einasta þeirra og skipta út stjórnendum í flestum tilfellum. Sjóðurinn skilaði tæplega 22,7% innri vexti öll árin sem hann starfaði sem er á pari við það sem best gerist hjá svona sjóðum erlendis."

Herdís er gift Sævari Péturssyni, munn- og kjálkaskurðlækni. „Við erum með fullt hús af börnum, þótt við eigum ekkert saman nema hundinn Casper, en ég á sjálf tvo stráka sem eru 23 ára og 16 ára. Ég hef mikinn áhuga á líkamsrækt og útivist, var um tíma í Toppförum og svo er ég nýbyrjuð í golfi og þá lendi ég í banninu.

Í dag er jóga aðaláhugamálið en eftir að ég hætti í framtakssjóðnum fór ég út til Taílands í sex vikna jógakennaranám sem var æðisleg leið til að hlaða batteríin eftir langa törn. Jóga hefur svo góð áhrif, bæði líkamlega og andlega, því það dregur mann frá amstri dagsins og gefur gott mótvægi þegar maður er í annasömu starfi."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .