*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 19. ágúst 2018 19:01

Lærði ótal margt af dvöl erlendis

Georg Haraldsson hefur tekið við sem forstöðumaður viðskiptastýringar hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Iceland Travel.

Ritstjórn
Georg Haraldsson tók nýverið við sem forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Iceland Travel.
Haraldur Guðjónsson

Georg Haraldsson tók nýverið við sem forstöðumaður viðskiptastýringar hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Iceland Travel. Hann er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík í samstarfi við IE Business School.

Georg starfaði lengi vel hjá dótturfyrirtæki Marorku í Dubai og segist vera reynslunni ríkari eftir þá dvöl. „Hlutverk mitt sem forstöðumaður viðskiptastýringar er að kafa ofan í sölumarkaðsstarf fyrirtækisins og greina hvar hægt er að gera betur,“ segir hann og  bætir við að nú, þegar aukning á komu ferðamanna til landsins er ekki jafnmikil og áður, sé mikilvægt að fyrirtækin í þessum geira brúi bilið milli viðskiptaheimsins og tækninnar sem er til staðar í nútímasamfélagi.

„Það er mjög greinilegt að fólk er í auknum mæli farið að skipuleggja eigin ferðir sjálft fremur en að eftirláta ferðaskrifstofunum það. Við sjáum til að mynda að margir af reynsluboltunum í þessum geira þurfa nú í meiri mæli að fylgja eftir breyttri markaðshegðun sem nú er að verða á þessu sviði. En ef við sem störfum hjá Iceland Travel höldum vel á spöðunum og aðlögum okkur að breyttum aðstæðum þá höfum við alla burði til þess að tryggja okkur áframhaldandi forystu á þessum markaði,“ bætir hann við.

Að sögn Georgs fer mestur tími utan vinnu í að sinna fjölskyldunni en Georg er kvæntur Hjördísi Jónsdóttur, viðskiptafræðingi, og eiga þau fjögur börn. „Ég á stóra fjölskyldu og börnin eru á aldrinum eins og hálfs árs til þrettán ára þannig það er mikið að gera á stóru heimili,“ segir hann og bætir við að þann litla tíma sem hann hefur fyrir sjálfan sig nýtir hann í golf, stangveiði og aðra útiveru.

Georg starfaði um hríð hjá dótturfyrirtæki Marorku í borginni Dubai í Sameinuðu Arabísku furstadæmunum. Hann segir dvölina hafa verið afar lærdómsríka og hafa opnað augu sín fyrir því að það sé ekki ávallt allt best á Íslandi og nefnir til að mynda í því samhengi gott heilbrigðiskerfi og góða skóla. „Ég flutti til Mið-Austurlanda með fjölskyldunni í um þrjú ár og kom heim einu barni og reynslunni ríkari,“ segir Georg.

„Dubai er í raun eins konar suðupottur af fólki víðs vegar að úr heiminum en það er ekki nema um 20% af fólkinu sem er innfætt. Þetta er allt annar menningarheimur en hér á landi. Maður lærir svo ótrúlega margt af því að stýra fólki frá mismunandi löndum en það helsta sem ég lærði var hversu mikilvægt það er að geta sett sig í spor annarra,“ segir hann að lokum. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is