Nafnarnir Stefán Gunnarsson og Stefán Björnsson, stofnendur Solid Cloud, hafa þekkst frá því í grunnskóla, þar sem þeir spiluðu mikið allskonar flókin herkænskuborðspil, en í gær var sagt frá því að fyrirtækið hyggist gefa frumútgáfu leiksins Starborne út í næsta mánuði. „Við eyddum yfirleitt hverjum einasta sunnudegi frá morgni til kvölds í að spila svona leiki. Við höfðum rosalega gaman af þessu og lærðum rosalega mikið af þessu, þú ert alltaf að horfa á þá sem eru að spila með þér og hugsa: „er hann að fara að svíkja mig eða ekki? hvað ætlar hann að gera næst? hver er að plotta núna?“ og við urðum allir vinir út frá þessu.

Við fórum yfir í fleiri týpur af leikjum eins og að spila í gegnum póst, þar sem þú færð í raun umslög send heim til þín og skrifar niður hvað þú ætlar að gera, og sendir svo umslagið til baka. Það voru alveg 100-200 manns að spila þetta hérna á sínum tíma, og það var hann Stefán Gunnarsson sem stjórnaði þessu. Ég var farinn að banka alltaf uppá hjá honum af því að ég var orðinn svo óþolinmóður að ég gat ekki beðið lengur eftir umferðinni minni. Ég bara hringdi í hann og beið hjá honum meðan hann var að stimpla inn allt dótið til að ég gæti fengið mína umferð svona heita beint úr prentaranum,“ segir Stefán Björnsson.

Upp úr aldamótum fór Stefán Gunnars að spila herkænskutölvuleiki sem svipaði til borðspilanna, en fannst þeir þó aldrei fanga almennilega þá upplifun sem hann hreifst svo af í borðspilunum í æsku. „Það hefur alltaf truflað mig við aðra sambærilega leiki að ég var alltaf inni í valmynd þar sem ég sá ekkert nema mína eigin herstöð. Svo komu snjallsímaleikir sem gerðu þetta eins. Ég var orðinn svo pirraður á þessari þróun, af hverju fóru þeir ekki í aðra átt með þetta?“ segir hann.

Lærði tölvunarfræði og stofnaði fyrirtækið til að gera leikinn sem hann vildi
Loks var Stefáni nóg boðið og ákvað að taka málin í sínar hendur. „Ég byrja að spila 2005 og svo líða bara árin og 2010 er þetta ennþá svona, síðan kemur snjallsímabyltingin og þá verður þetta ennþá meira svona. Ég var orðinn svo rosalega pirraður á þessu að 2010 ákvað ég að fara í tölvunarfræði, kláraði 2013 og við stofnum svo Solid Clouds til að laga vandamálið.

Í okkar útfærslu horfirðu meira yfir allt kortið og sérð staðsetningu herstöðva annarra spilara, þú hefur mun meiri yfirsýn yfir það sem er í gangi og tilfinningu fyrir því úr hvaða átt hætta steðjar að þér og í hvaða átt stækkunar- og árásartækifærin liggja, ólíkt hinum leikjunum þar sem þú hefur bara þína eigin herstöð og hún er ekki staðsett á neinum ákveðnum stað í heimi leiksins, miðað við herstöðvar annarra spilara.“

Eftir útskrift settist Stefán Gunnars niður með Stefáni æskuvini sínum ásamt skólafélaga úr tölvunarfræðinni og Sigurði Arnljótssyni, fyrrum forstjóra CCP og stofnanda Brunns fjárfestingasjóðs, og sannfærði þá um að fara í þessa vegferð með sér. „Við erum fjórir stofnendur. Það er ég, sem er svona hugmyndasmiðurinn, Sigurður sem er fjárfestingastjóri. Síðan er það Stefán og svo er einn úr tölvunarfræðinni með mér sem heitir Daníel Sigurðsson. Við fjórir settumst niður í stofunni heima hjá Stefáni og ég lýsti þessari hugmynd fyrir þeim. Þeir ákváðu að slá til og þannig varð Solid Clouds til,“ segir Stefán Gunnarsson.

Stuttu seinna fengu þeir Hrafnkel Óskarsson frá CCP til liðs við sig, og nokkru eftir það Ásgeir Jón Ásgeirsson, fyrrum listrænan stjórnanda EVE Online. „Ásgeir sem hannaði stóran hluta útlitsins í EVE Online til dæmis er að hanna útlitið hjá okkur og hætti hjá CCP þar sem hann var með 30 manna deild, því hann langaði að fara í eitthvað annað. Ég sannfærði hann um að gera einn geimleik í viðbót með því loforði að hann fengi að teikna riddara næst. Í dag erum við komin með teymi sem ég er bara virkilega stoltur af að vera með. Ég er ekkert í sama flokki sjálfur þó að ég hafi haft smá egó í forritun þegar ég var í háskóla.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .