*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Fólk 14. maí 2021 13:09

Rússíbanareið frumkvöðulsins

Framkvæmdastjóri Good Good segir umframbirgðir af sætuefnum hafa leikið lykilhlutverk í þróun á nýjum vörum hjá félaginu.

Snær Snæbjörnsson
Garðar Stefánsson er framkvæmdastjóri Good Good
Aðsend mynd

Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good Good var nýlega í viðtali við Authority Magazine og ræddi þar um þá rússíbanareið sem að fylgir því að vera frumkvöðull.

Garðar hóf feril sinn sem frumkvöðull eftir nám í Árhúsum þegar að hann stofnaði Norður & Co. ehf. sem að framleiðir Norðursalt á Reykhólum. Hann seldi síðar fyrirtækið og gekk til liðs við sprotafyrirtækið Via Health sem framkvæmdastjóri. Í dag er fyrirtækið þó eflaust betur kunnugt landsmönnum undir nafninu Good Good.

Fyrirtækið hefur verið í mikilli sókn og velta félagsins hefur aukist hratt líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um síðasta sumar. Þá hafði velta félagsins á Amazon þrefaldast á nokkrum mánuðum.

Of stór sætuefnalager skipti miklu

Hann segir að vendipunktur í starfsemi fyrirtækisins hafi komið þegar að fyrirtækið sat uppi með of stóran lager af sætuefnum sem hætt var að færi til spillis. Þá var farið að fikra sig áfram að búa til sultur sem innihéldu sætuefni í stað sykurs. Sulturnar fengu góðar undirtektir og þá varð ekki aftur snúið. Nú telur vöruúrval fyrirtækisins ásamt sultum síróp, ketóstangir og sætuefni, þá eru einnig fleiri vörur í bígerð.

Þau persónueinkenni sem hafa spilað hvað stærstan hlut í árangri Garðars eru heiðarleiki, aðlögunarhæfni og vaxtarhugarfar.

Hann segir að heiðarleiki við teymið sitt, viðskiptavini, hagsmunaaðila og sjálfan sig sé mikilvægt. Með því að vera heiðarlegur við aðra eru aðrir heiðarlegir við hann á móti, til dæmis með því að benda á vandamál sem voru ekki bersýnileg honum. Þá er jákvætt viðhorf einnig mikilvægt, en að það megi þó ekki koma á kostnað heiðarleika. Þá er aðlögunarhæfni ekki síður mikilvæg af því að ekki er hægt að reiða sig of mikið á það sem hefur virkað áður. Með vaxtarhugarfari á Garðar við að það sé alltaf hægt að vaxa, bæði í starfi og einkalífi, og að fyrirtækið sé alltaf að leita að nýjum og betri leiðum til að gera hlutina.

Aðspurður hvaða ráð hann vildi hafa leitt framhjá sér segir hann að gamla tuggan um að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér eigi ekki alltaf við. Oft er það örlítill minnihluti sem að lætur mest af sér kveða og að það endurspegli ekki endilega viðhorf flestra viðskiptavina. Því sé mikilvægt að horfa á heildarmyndina áður en breytingar eru gerðar. Einnig er mikilvægt að fagna öllum litlu sigrunum og að þeir leiði til stærri sigra. Þá er einnig mikilvægt að dvelja ekki of lengi við mistök eða töpuð tækifæri.

Mikilvægi þess að halda ró sinni

Varðandi mistök sem að frumkvöðlar gera oft bendir hann á hve langan tíma það tekur að framkvæma öll smáu verkefnin og að þau leiði oft til tafa. Því sé mikilvægt að forgangsraða vel öllum verkefnum og túlka vel til starfsmanna hvaða verkefni eru í raun mikilvægust.

Hann segir rússíbanareiðina, og þær hæðir og lægðir sem að henni fylgja, vera það sem drífi frumkvöðla áfram. Það er óhjákvæmilegt að taki árangur fyrirtækisins nærri sér og að það sé birtingarmynd ástríðu frumkvöðulsins fyrir fyrirtækinu. Þá fyllist maður stolti og ánægju þegar fyrirtækinu gengur vel.

Garðar segir að það sé mikilvægast að vaxa í gegnum rússíbanareiðina og halda ró sinni. Þegar að maður upplifir lægðirnar sem fylgja starfinu er mikilvægt að halda haus og falla ekki ofan í áhyggjugryfju. Aftur á móti er mikilvægt að verða ekki værukær þegar að maður er hátt uppi, því að það getur leitt til dýrra mistaka.