Í sland kom vel út úr þeim óhefðbundnu efnahagsaðgerðum sem gripið var til eftir hrun bankakerfisins haustið 2008. Endanlegu uppgjöri við fjármálahrunið er þó ólokið, þar sem ekki hefur tekist að leysa úr þeim kerfisvandamálum sem leiddu til fjármálahrunsins. Reynsla Íslands í hruninu og endurreisn fjármálakerfisins felur þó í sér mikilvægan lærdóm fyrir aðrar þjóðir á sviði bankastarfsemi og alþjóðafjármála.

Þetta er meginstefið í nýrri bók um íslensku fjármálakreppuna og eftirmál hennar. Höfundar bókarinnar eru Ásgeir Jónsson, dósent og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, og Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild sama skóla. Bókin ber heitið The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World’s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse og er gefin út í sérstakri ritröð um banka og fjármálastofnanir frá Palgrave Macmillan.

Bókin er fyrsta verkið sem fer í saumana á eftirmála fjármálakreppunnar hér á landi með heildstæðum hætti; frá setningu neyðarlaganna og endurskipulagningu bankakerfisins, beitingu fjármagnshafta, til uppgjörs við slitabú föllnu bankanna og útreiknings á hreinum kostnaði ríkissjóðs af falli viðskiptabankanna og endurreisn þeirra.

„Bókin er fræðileg úttekt á þeim óhefðbundnu efnahagsaðgerðum sem gripið var til í endurreisn fjármálakerfisins og endurskipulagningu efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja í landinu,“ segir Ásgeir. „Rúmlega átta árum eftir hrun vitum við nokkurn veginn hvernig við stöndum, sem gefur færi á því að meta árangur aðgerðanna með fræðilegum hætti.“

Lærdómur fyrir aðrar þjóðir

Ásgeir segir að ein helsta ástæðan fyrir ritun bókarinnar sé að reynsla Íslands af hruninu, endurreisn fjármálakerfisins og efnahagsbati undanfarinna ára er áhugavert viðfangsefni út frá hagfræði og fjármálum.

„Fjármálakreppan árið 2008 var alþjóðlegt fyrirbæri, en þær ráðstafanir sem gripið var til hér á landi voru ólíkar því sem gert var í Bandaríkjunum og Evrópu. Ísland var í sérstöðu sem lítið, opið hagkerfi með eigin mynt og ofvaxið bankakerfi. Stærðargráða banka- og gjaldeyriskreppunnar var einstök í hagsögulegu samhengi. Við leystum úr okkar vandamálum upp á eigin spýtur og komumst aftur á lappir fljótar heldur en flest önnur vestræn ríki. Reynsla Íslendinga hlýtur því að bjóða upp á áhugaverðan lærdóm fyrir aðrar þjóðir,“ segir Ásgeir.

„Lærdómurinn í bankastarfsemi er að lítil lönd geta ekki verið með alþjóðlega banka- eða fjármálastarfsemi til langs tíma litið ef þau eru ekki með forðamynt. Annars standa bankarnir án lánveitanda til þrautavara og hagkerfið upplifir banka- og gjaldeyriskreppu.

Lærdómurinn í alþjóðafjármálum snýr að fjármagnshöftum. Höftin gerðu okkur kleift að endurskipuleggja bankakerfið og vinna úr skuldamálum með kerfisbundnum hætti. Þar að auki veittu þau íslenskum stjórnvöldum samningsstöðu við erlenda kröfuhafa sem endaði með greiðslu stöðugleikaframlaga og hjálpuðu til við að fjármagna ríkissjóð. Að sumu leyti reyndust höftin okkur því mjög vel, en á sama tíma er erfitt að mæla með fjármagnshöftum sem efnahagsaðgerð, þar sem þeim fylgir langvarandi beinn og óbeinn kostnaður,“ segir Ásgeir.

Þegar öllu er á botninn hvolft var staðið rétt að endurreisn íslensks atvinnulífs. „Rannsóknarskýrsla Alþingis gefur til kynna að allt hafi misheppnast í efnahagsaðgerðum eftirhrunsáranna. En það er ekki rétt. Við komum ótrúlega vel út úr þessu efnahagslega séð, sérstaklega endurskipulagningunni á skuldum heimila og fyrirtækja, en Íslendingar hafa margir hverjir neitað að viðurkenna það sem heppnaðist vel eftir hrun,“ segir Ásgeir. „Það hefði hins vegar verið betra að ráðast í þessar skuldaaðgerðir fyrr. En það er alltaf hægt að vera vitur eftir á.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .