*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 25. mars 2019 19:03

Lærdómur hrunsins

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, átti 20 ára feril að baki í Íslandsbanka áður en hann gekk til liðs við Eimskip.

Ritstjórn
Vilhelm Már þorsteinsson á 20 ára feril að baki í Íslandsbanka þar af var hann i 10 ár framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans.
Haraldur Guðjónsson

Fyrstu skrefin í bankanum voru í verðbréfamiðlun þar sem ég var í þrjú ár. Næsta skref var framhaldsnám í New York þar sem ég lauk mastersprófi (MBA). Ég flutti út haustið 2001, þremur vikum áður en hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Tvíburaturnana, en skólinn minn var neðarlega á Manhattan ská á móti sjálfum Turnunum. Þessi atburðir höfðu auðvitað gríðarleg áhrif á borgina og settu mikinn svip á þessi tvö ár sem ég var við nám í borginni. Mikill harmleikur en líka mjög áhugaverður tími og lærdómsríkur.

Ég útskrifast vorið 2003 og kem beint heim aftur í Íslandsbanka. Fyrstu þrjú árin eftir heimkomuna var ég á fyrirtækjasviðinu en bauðst þá að flytjast áskrifstofu bankastjóra sem Bjarni Ármannsson fór þá fyrir og síðar Lárus Welding. Þar sinnti ég mjög fjölbreyttum verkefnum en mörg voru tengd samskiptum við erlendar bankastofnanir og dótturfélög sem keypt höfðu verið erlendis. Eftir því sem á leið fóru verkefnin að tengjast fjármögnun bankans og sölu eigna og eignasafna.

Þegar Birna tekur við stjórninni eftir hrun bauð hún mér starf framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans og var ég þá yfir fyrirtækjasviðinu í þeirri endurskipulagningu á lánasafni og rekstri bankans sem gekk þá í garð,“ segir Vilhelm.

En hvaða lærdóm dregur Vilhelm af hruninu nú þegar hann horfir til baka yfir langan og farsælan feril á miklum umbrotatímum í bankakerfinu?

„Það er auðvelt að vera vitur eftir á en ég er lítið hrifinn af handhægum eftiráskýringum. Vissulega var maður staddur í miðri hringiðunni en öll athygli manns beindist óskipt að þeim verkefnum sem manni var falið að leysa. Fyrir vikið var yfirsýn mín og annarra starfsmanna á gólfinu mjög takmörkuð. Þegar syrta tók í álinn fór t.d. eiginlega allur minn tími í að leita nýrra leiða til að fjármagna bankana með sölu á eignarsöfnum en þótt maður hafi verið í kafi í þessari vinnu sá ég aldrei hina hliðina á efnahagsreikningnum. Ég held að mjög fáir hafi verið í stöðu til þess að sjá heildarmyndina á þessum tíma og kannski er ákveðinn lærdómur fólginn í þeirri staðreynd.

Það var hins vegar mjög lærdómsríkt að taka þátt í endurskipulagningu bankans eftir hrun. Verkefnið krafðist þess að kafað væri niður í rætur kerfisins og við það dýpkaði skilningur manns á því hvernig kerfið er uppbyggt og hvernig það virkar. Hlutirnir verða meira áþreifanlegir og hugtök eins og eiginfjárhlutfall og eiginfjárstaða hætta að vera bara kennitölur á blaði sem gott er að hafa til hliðsjónar. Nú hefur maður betri skilning á tengslum hugtakanna við raunveruleikann og hvers vegar þau skipta jafn miklu máli og raun ber vitni. Þessi reynsla hefur ekki einvörðungu aukið skilning minn á bankakerfinu heldur ekki síður rekstri fyrirtækja almennt.

Ef ég reyni að taka þetta saman þá er maður meðvitaður um hættuna sem felst í því að einblína svo á trén að maður missir sjónar af skóginum. Þá hefur reynslan sjálfsagt gert mann varfærnari en um leið líka nákvæmari og kröfuharðari í öllum verkefnum sem maður tekur sér fyrir hendur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is