Ari Edwald segir að íslenskur efnahagur muni ná sér upp úr kreppunni sem fylgt hefur í kjölfar banka- og gjaldmiðlahrunsins. Hann segist sjálfur illa hafa gert sér grein fyrir veikleikunum sem voru í íslenska bankakerfinu.

„Ég áttaði mig ekki á því hversu veikt eigið fé bankakerfisins íslenska var í raun vegna lánveitinga til kaupa á hlutafé í bankakerfinu sjálfu. Eftir á að hyggja þá finnst manni að það verði að gjalda miklum varhug við skuldsettu eignarhaldi í bönkunum. Ég tel að bankar ættu ekki að geta lánað til kaupa á eigin hlutafé og jafnvel ekki til kaupa á hlutafé í öðrum íslenskum bönkum, þetta verður svo samofið. Vonandi verða stigin ákveðin skref í þá átt svo við getum lært af þeim mistökum sem gerð voru. Það er aðalatriðið í mínum huga.“

Ari segir að lítil fjárfesting í hagkerfinu sé áhyggjuefni. Það þarf að greiða fyrir fjárfestingu og hagvexti. Þar hafa stjórnvöld dregið lappirnar, t.d. á sviði orkunýtingar, en almennt virðast stjórnvöld líka vera fjandsamleg atvinnulífinu og hirðulaus um starfsumhverfi þess. Skýrasta dæmið sé „ótrúleg aðför“ stjórnvalda að sjávarútvegi.

„Sjávarútvegur er okkar mikilvægasta atvinnugrein og ef hann hikstar þá hikstar allt hagkerfið. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það áfram. Ég tel stjórnvöld vera á algjörum villigötum með áform sín í sjávarútvegi og trúi því hreinlega ekki að þau ætli að kollvarpa kerfinu þegar málið hefur verið skoðað ofan í kjölinn. Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skilað heilmiklu til þjóðarinnar og það er ekki að ástæðulausu sem aðrar þjóðir og ríkjasambönd eins og Evrópusambandið, horfa hingað þegar kemur að því að ákveða hvernig hagkvæmast sé að stýra fiskveiðum. Hagsmunir fólks og fyrirtækja fara hér sannarlega saman," segir Ari.

Ítarlegra viðtal við Ara má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.