Formenn Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands segja að fleiri mál en hreinar launahækkanir skipti félögin máli í kjarasamningagerð þeirra, en ekki sé hægt að líta á samkomulag aðila á almenna vinnumarkaði, lífskjarasamningana svokallaða, sem grundvöll.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er námslánakerfið, meðal þess sem lögð verður áhersla á, þar sem skattafrádráttur eða eftirgjöf námslána gæti verið ein leið fyrir ríkið til að koma til móts við þessa hópa. Einnig eru lífeyrismál og almannatryggingar nefnd til sögunnar sem grundvöllur breiðrar sáttar.

Ragnar Þór Pétursson formaður Kennarasambands Íslands, segir einnig að fleiri mál en launahækkanir skipti máli við kjarasamningagerðina.

„Við þurfum á því að halda að reynt verði að gera atlögu að því að ná hér alvöru þjóðarsátt, en til þess verða menn þá að taka stóru málin sem eru alltaf á bakvið tjöldin og stjórna þessu ferli öllu saman, óháð því hvaða fólk er í forystu fyrir stjórnvöld og verkalýðsforystuna á hverjum tíma, og ræða þau fyrir opnum tjöldum. Þá er ég að tala um lífeyrismálin, almannatryggingamál og vinnumarkaðsmál. Þetta eru stóru málin sem við höfum verið í vandræðum með lengi því það hefur skort á traust,“ segir Ragnar Þór.

„Það er margt gott í þessum svokallaða lífskjarasamningi, en hann stendur ekki nógu sterkum fótum til að vera grunnur undir víða sátt sem hægt sé að kalla þjóðarsátt. Það er enn gríðarleg undirliggjandi spenna á vinnumarkaðnum, jafnvel hjá þeim aðilum sem sömdu, og það væri ábyrgðarlaust af okkur að taka ekki mjög alvarlega það verkefni að grundvalla samninga byggða á raunverulegri sátt, en ekki bara létti yfir því að við höfum sloppið fyrir horn. Því svoleiðis getur aldrei orðið annað en vopnahlé sem blossar upp aftur, sem hefur verið íslenska leiðin.“

Meðal þess sem Ragnar Þór segir að dragi úr trausti sé hættan á að ríkið beiti sér með lögum gegn opinberu félögunum, líkt og gert var eftir þjóðarsáttina á sínum tíma, en einnig nefnir hann deilurnar um kjararáð.

„Það er ákveðin þversögn í því að sú aðgerð sem verið hefur á vinnumarkaðnum á Íslandi til að reyna að stoppa höfrungahlaupið, hefur í raun búið til ofsafengið höfrungahlaup, þar sem allir eru að reyna að ná einhverri grunnstöðu áður en kerfinu verður læst. En ef ríkið myndi beita valdi til að reyna að stoppa það þá færi það á mis við það sem sérfræðingar um norræna vinnumarkaðsmódelið hafa sagt að þurfi að vera grundvallaratriði í kerfinu.

Það er traust og sátt, bæði gagnvart stjórnvöldum og samfélagsgerðinni svo aðilar vinnumarkaðarins séu tilbúnir að láta af brjálæðislegri hagsmunagæslu í trausti þess að hagsmunum þess sé sæmilega borgið, og það er það sem hefur kannski vantað hjá okkur. Ég er persónulega tilbúinn að leggja mikið á mig til þess að koma okkur út úr þessum eitraða farvegi sem málin hafa verið í.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .